Aldrei áður snjóflóð úr Heljartröðinni

Það eru snjóflóð úr öllum giljum á Hvanneyrarströndinni. Sum ná …
Það eru snjóflóð úr öllum giljum á Hvanneyrarströndinni. Sum ná niður í sjó en flóðin eru einn til sex metrar á þykkt. Ljósmynd/Gestur Hansson.

„Ég held að það hafi skapast nákvæmlega sama ástand núna og í ágúst í fyrra í rigningunni, þegar Hvanneyraráin fór úr böndum. Það er búin að vera gríðarleg ofankoma á tiltölulega litlu svæði yst á Tröllaskaga, með þessum afleiðingum sem raun ber vitni núna.

Það voru meira að segja að falla snjóflóð úr Heljartröðinni, þegar veðrið var nýskollið á, ég hef aldrei heyrt þess getið áður að eitthvað hafi komið þar niður,“ sagði Gestur Hansson, snjóathugunarmaður Veðurstofu Íslands á Siglufirði til fjölda ára.

Fjallað er um málið á vefnum Siglfirðingur.is.

Byrjað var að hreinsa veginn norðan og vestan Siglufjarðar upp úr hádegi í dag og til þess notaður fjöldi moksturstækja. Nú er þar þungfært og skafrenningur.

„Hvað byggðina varðar, þá er þetta orðið svo vel varið hérna í kringum okkur, að við erum tiltölulega örugg. Og meðan menn beita þessum lokunum á vegum þá getur maður verið þokkalega vel sáttur við þetta. Þessi gæsla sem er orðin, að loka bara veginum og fylgjast með veðurspá og ástandi snjóalaga, hún er að virka, því við höfum fengið flóðin undanfarið á lokaða vegi,“ sagði Gestur einnig. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert