Fundu frið og frelsi á Íslandi

Maður gengur fram hjá veggjalist í Kólumbía þar sem stendur …
Maður gengur fram hjá veggjalist í Kólumbía þar sem stendur Friður fyrir þjóðina - mannréttindi en vopnuð átök og glæpastarfsemi hefur litað samtímasögu landsins. AFP

Kólumbísk kona og dætur hennar tvær sem íslensk stjórnvöld hafa neitað um hæli hafa verið á flótta í fimmtán ár. Í viðtali við mbl.is segir konan, sem ekki vill koma fram undir nafni, að á Íslandi geti þær loks um frjálst höfuð strokið. Hún biður aðeins um tækifæri til að byrja upp á nýtt hér.

Íbúð á vegum Rauða krossins í Keflavík hefur verið heimili litlu fjölskyldunnar undanfarin misseri en hún kom fyrst til landsins frá Spáni í september árið 2014. Konan sótti um hæli fyrir sig og dætur sínar við komuna. Stúlkurnar hafa gengið í skóla í Keflavík frá því í febrúar í fyrra, sú eldri í Fjölbrautaskóla Suðurnesja en sú yngri í grunnskóla. Þar hafa þær eignast vini og una sér vel í fyrsta skipti eftir mörg erfið ár.

Útlendingastofnun vildi hins vegar ekki taka hælisumsókn þeirra til efnismeðferðar. Kærunefnd útlendingamála haggaði ekki þeirri niðurstöðu en lögmaður konunnar hefur kært ákvörðunina til dómstóla. Hann segir að þeim verði tilkynnt á mánudag hvort mæðgurnar fái að vera á landinu á meðan málareksturinn stendur yfir eða hvort þær verði sendar strax aftur til Spánar.

Sú tilhugsun fyllir þær kvíða en á Spáni lifðu þær í ótta við ógnanir sem fylgdu þeim alla leið frá heimalandinu auk þess sem stúlkurnar tvær, sem eru 10 og 18 ára gamlar, urðu fyrir einelti í skóla.

Það er ógnin af glæpamönnum í Kólumbíu og Spáni sem gerir það að verkum að konan, sem sjálf er 54 ára gömul, vill ekki koma fram undir nafni. Hún var hins vegar tilbúin að segja mbl.is sögu sína. Til að liðka fyrir frásögninni verður hún hér eftir nefnd María. 

„Ég vil ekki að ríkið haldi mér uppi. Það er ekki það sem ég vil. Ég vil vera hér því ég er kona sem hefur styrk til að halda áfram með dætrum mínum. Ég vil vinna og gera gagn í þessu landi. Það er það sem ég vil,“ segir hún ákveðin.

Hröktust frá einum stað til annars

Raunir fjölskyldunnar hófust í kringum aldamótin í Kólumbíu, nærri borginni Cali, samkvæmt frásögn Maríu. Vopnaðar sveitir sem kalla sig uppreisnarmenn en eru taldar líkari skipulögðum glæpasamtökum hafa haft mikil umsvif í landinu undanfarna hálfa öld. Ein þeirra, ELN, vildu fá eiginmann Maríu til að vinna fyrir sig, meðal annars vegna tungumálahæfileika hans og verkfræðiþekkingar. Liðsmenn ELN vildu einnig að hann hjálpaði þeim að fá ungmenni til að ganga til liðs við samtökin.

Undir það vildi hann ekki gangast en afleiðingar þess hafa mótað líf fjölskyldunnar fram á þennan dag. Liðsmenn ELN beittu hann ógnunum en María segir að honum hafi meðal annars verið rænt og hann skotinn í fótlegginn á þessum tíma til að knýja hann til að ganga að kröfum glæpamannanna. Því brá hann á það ráð að flýja til Spánar árið 2000. María og eldri dóttir þeirra fylgdu í kjölfarið árið eftir.

Þar sótti fjölskyldan um hæli án árangurs. Hún fékk þó dvalarleyfi og byrjaði að koma undir sig fótunum. Yngri dóttirin fæddist á Spáni og er því með spænskt ríkisfang. Árið 2007, þegar fjölskyldan bjó í Málaga, varð eiginmaður Maríu hins vegar fyrir fólskulegri árás nokkurra Kólumbíumanna. Hún segir að þar hafi verið að verki menn tengdir ELN í heimalandinu sem vildu að hann sneri aftur þangað. Hann hafi ekki lagt fram kæru af ótta við mennina.

Því tóku þau sig aftur upp og flúðu til Tenerife á Kanaríeyjum. Þar töldu þau sig loksins geta búið í friði. Adam var hins vegar ekki lengi í paradís. Til að reyna að tryggja öryggi Maríu og dætranna ákvað eiginmaður hennar að fara annað. Hann hélt til Íslands árið 2012 og sótti um hæli, en fékk á endanum ekki.

Í desember sama ár var María á gangi ásamt dætrum sínum þegar tveir menn undu sér upp að þeim úti á götu á Tenerife.

„Við héldum að þeir ætluðu að spyrja til vegar en þegar þeir komu sögðu þeir: „Hvar er eiginmaður þinn?“ Veistu hvað við gerðum? Við tókum til fótanna,“ segir María.

Dóttirin reyndi að svipta sig lífi

Eldri stúlkan varð einnig fyrir barðinu á hótunum þeirra sem voru á eftir föður hennar. Að áeggjan kristins fólks sem María kynntist ákvað hún að kæra hótanirnar til lögreglu. Móttökurnar sem hún fékk hjá henni voru hins vegar slæmar, segir hún. Lögreglumennirnir hafi gert lítið úr sögu hennar og ýjað að því að hún tengdist fíkniefnaviðskiptum án þess að kynna sér sögu hennar á nokkurn hátt.

Stúlkurnar voru óttaslegnar vegna ógnananna sem tengdust föður þeirra en ofan á það urðu þær fyrir slæmu einelti í skóla. Flóttalífið og einangrunin varð til þess að þær lokuðu sig að miklu leyti af heima fyrir og hættu að ganga í skóla á tímabili. Ástandið lagðist þungt á stúlkurnar, sérstaklega þá eldri sem þjáðist af þunglyndi og reyndi meðal annars að svipta sig lífi, að sögn Maríu.

„Mamma, ég vil ekki þetta líf, ég vil ekki þetta líf,“ segir María að eldri dóttir sín hafi sagt sér á þessum tíma.

María sá að þær gætu ekki lifað svona áfram. Eiginmaður hennar hafði farið fögrum orðum um Ísland þrátt fyrir að honum hafi verið neitað um hæli hér. Sagði hann gott að búa hér og fólkið væri vingjarnlegt. Því pakkaði hún ofan í töskur og kom með dætur sínar hingað í september árið 2014. Á flugvellinum gaf hún sig fram við yfirvöld og óskaði eftir hæli fyrir þær hér.

Vill að stúlkurnar fái að eiga æsku

Þrátt fyrir óvissuna um framhaldið hefur líf mæðgnanna tekið stakkaskiptum hér á landi. Dæturnar segjast una sér vel í skólanum og þær hafi eignast vini, bæði íslenska og frá öðrum löndum. Þær hafa einnig lært íslensku. Sú eldri kynnir sig við blaðamann og segir hvað hún er gömul varfærnislega á íslensku. Hún segir að enn sem komið er skilji hún mun meira en hún treysti sér til þess að tala. Sú yngri hefur hægt um sig en skartar naglalakki í líki íslenska fánans.

„Mamma, við höfum aldrei verið eins hamingjusamar og í þessu landi,“ segir María að stúlkurnar segi henni. Sérstaklega hafi eldri dóttirin, sem hefur mátt þola einelti frá því að hún var lítil vegna líkamlegs lýtis, það á orði að hér séu börn sem eru öðruvísi ekki látin finnast þau vera minna virði. Enginn geri lítið úr henni eða stríði hér.

Móðir þeirra getur ekki unnið hér á landi en hún hefur stytt sér stundir með því að læra íslensku, hugsa um dætur sínar og taka þátt í safnaðarstarfi Alþjóðlegu kirkju guðs og embætti Jesú Krists, en hún var stofnuð í Kólumbíu og hefur kirkjur um allan heim. Þar hefur María fengið mikinn stuðning.

„Hér hef ég fengið mikinn stuðning frá fólki í kirkjunni. Ég hef aldrei hitt fólk sem hefur veitt mér eins mikinn stuðning. Það gefur mér styrk,“ segir hún en hún ber einnig starfsmönnum Rauða krossins og lögmanni sínum vel söguna.

Hamingja stúlknanna er Maríu efst í huga. Henni er umhugað um að þær séu frjálsar og þær þurfi ekki að vera háðar henni eins og á Spáni þar sem þær voru nær innilokaðar á heimili sínu. Hér geti þær um frjálst höfuð strokið. Því eru yfirborðsleg atriði eins og veðurfarið eða smæð samfélagsins nokkuð sem þær láta sig litlu varða.

„Það getur verið hvaða veður sem er. Ef þú ert róleg og finnur fyrir friði þá er allt annað aukaatriði. Ef þér er kalt þá ferðu í úlpu en ef þú ert ekki róleg og þú finnur ekki frið... Ef dætur mínar eru hamingjusamar þá líður mér vel. Mér líður vel yfir því að þær séu glaðar í skólanum. Þær verða ekki fyrir einelti,“ segir María.

Ef þeim verður vísað aftur til Spánar bíður þeirra aðeins óvissan. Eins og áður segir fæddist yngri dóttirin á Spáni og er því ríkisborgari þar. Dvalarleyfið sem María hafði á Spáni er útrunnið en hún telur mögulegt að fyrir tilstilli dóttur sinnar geti hún fengið leyfi til að vera þar áfram. Vilji hennar stendur hins vegar ekki til þess.

„Ég vil ekki fara aftur til Spánar. Ég gæti fengið pappíra þar en hvað svo? Hvað með hamingju dætra minna? Ró okkar. Það er það sem ég vil. Frið og ró, að dætur mínar búi í friði, að þær eigi æsku, að þær eigi allt þetta góða eins og venjulegar fjölskyldur,“ segir María.

Ekki sanngjarnt að vísa fólki frá

Undanfarið hafa fregnir borist af fjölda hælisleitenda hér á landi sem á að vísa úr landi. María segist hafa samúð með þeim. Þetta fólk komi úr hræðilegum aðstæðum, oft stríði, og það vilji eiga fjölskyldur sínar í friði og hamingju. Maríu finnst ekki rétt að vísa fólki eins og henni úr landi, sérstaklega þegar það er búið að festa rætur eins og dætur hennar hafa gert á því um það bil eina og hálfa ári sem mál þeirra hefur velkst um í kerfinu.

„Það er eins og að gefa þeim sælgætismola en taka hann síðan af þeim. Ég skil að hvert land hefur sín lög en þetta er ekki sanngjarnt. Það er ekki sanngjarnt að dætur mínar komi hingað fullar af áhuga, þær eru búnar að vera hérna allan þennan tíma og hvað svo? „Farið núna.“ Ég er ekki sammála þessu. Af hverju kemur ekki svar hratt hvort sem það er já eða nei? Það er það sem ég hugsa. Þrír eða fjórir mánuðir en nú eru liðin tvö ár og þær eru svo áhugasamar um að eiga betra líf,“ segir hún.

Sjálf segist hún líta á Ísland sem nokkurs konar paradís. Hún hafi aldrei kynnst eins friðsælu landi. Hvorki hana né eiginmann hennar langi til þess að koma hingað til að láta ríkið sjá fyrir sér heldur séu þau tilbúin til að vinna og leggja sitt af mörkum. Draumur hennar er að fjölskyldan geti einn daginn sameinast hér og lifað í friði. 

„Ég er að leita að landi sem hjálpar okkur, sem veitir okkur vernd. Það gefi okkur tækifæri til þess að halda áfram og að eiga eðlilegt líf eins og aðrar fjölskyldur. Það er það sem ég bið þetta land um. Ef þeir geta gefið okkar þetta tækifæri að vera hér, þá bið ég bara um að þeir hugsi sig vel um áður en þeir taka ákvörðun um að vísa okkur héðan. Ef ekki mín vegna þá fyrir dætur mínar,“ segir hún og tárast.

Fyrri frétt mbl.is: Leyfi fólki að njóta vafans

Útlendingastofnun vildi ekki taka hælisumsókn konunnar og dætra hennar til …
Útlendingastofnun vildi ekki taka hælisumsókn konunnar og dætra hennar til efnislegrar meðferðar.
Konan gaf sig fram við yfirvöld þegar hún kom hingað …
Konan gaf sig fram við yfirvöld þegar hún kom hingað með dætrum sínum í september árið 2014. mbl.is/Sigurgeir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert