Hélt að þetta væri hans síðasta

Ökumaður sem átti leið um Hvalfjarðargöngin nýverið varð fyrir því að blindast af sól í rykmekki með þeim afleiðingum að hann ók yfir á rangan vegarhelming óaðvitandi. Skömmu eftir að hann náði að koma sér fyrir á réttan vegarhelming kom vöruflutningabifreið á fullri ferð inn í göngin. 

Framkvæmdastjóri Spalar og öryggisstjóri staðfesta að þetta geti gerst þegar sólin er lágt á lofti og svifryksmengun er mikil. Þeir biðja ökumenn um að fara varlega við slíkar aðstæður og gæta þess að hægja verulega á ferðinni. 

Það sé öflugur hreinsunarbúnaður í göngunum en suma daga nægi það einfaldlega ekki. Hvalfjarðargöngin eru hreinsuð reglulega en til þess þarf að loka fyrir umferð um göngin og þegar mikil hálka er í Hvalfirðinum sé einfaldlega ekki boðlegt að senda ökumenn þá leið. 

Svifryk í Reykjavík
Svifryk í Reykjavík mbl.is/Kristinn

Ökumaðurinn sem varð fyrir þessu segist hafa haldið að þetta væri hans síðasta. Þegar hann átti um 200 metra eftir út úr göngunum á leið til Reykjavíkur hafi sólin blindað hann á sama tíma og hann sá vart út vegna ryks. 

Í fyrstu hélt hann að framrúðan væri svona skítug og rispuð en þrátt fyrir að hafa notað mikinn rúðuvökva og þurrkurnar í botni þá sá hann ekki neitt. Að hans sögn hægði hann mjög á en þegar hann kom upp úr göngunum heyrði hann blístur og reyndist það vera ökumaður bifreiðarinnar á eftir honum. Sá var í skugga af bifreið þess sem ók fyrir framan og sá hvað var að gerast. 

mbl.is/Sverrir

Honum tókst að öskra á ökumann fremri bifreiðarinnar að hann væri kominn yfir á rangan vegarhelming og sá sveigði yfir á réttan helming. Aðeins nokkrum augnablikum síðar kom flutningabifreið á fullri ferð enda ökumaður þeirrar bifreiðar grunlaus um það sem gerst hafði.

Gylfi Þórðarson framkvæmdastjóri og Marinó Tryggvason öryggisstjóri Spalar, rekstrarfélags Hvalfjarðarganganna, staðfesta að atvikið hafi átt sér stað og biðja ökumenn um að fara sérstaklega varlega þegar sólin er lágt á lofti og mikið svifryk í andrúmsloftinu. Ekki bæti úr skák að þegar mikið er saltað, eins og hefur þurft að gera í vetur, þá aukist svifrykið enn frekar.

Mikil umferð er um göngin og Hvalfjörðurinn oft hættulegur vegna hálku og því sé erfitt um vik að loka göngunum til þess að þrífa þau en það sé engu að síður gert reglulega.

Svifryksmengun
Svifryksmengun mbl.is/Styrmir Kári

Í þessu tilviki var ökumaðurinn að koma upp úr göngunum að sunnan en að sögn Gylfa er staðan oft verri þegar ekið er upp úr göngunum að norðanverðu. Marinó mælir með því að ökumenn hægi verulega á ferðinni þegar aðstæður eru sem þessar og hægt sé að fylgjast  með stöðu sólar á vegg ganganna nokkru áður en sólin skellur á framrúðu bifreiða af fullum þunga.

Ekki var hægt að fá afhent myndskeið úr eftirlitsmyndavélum Spalar í tengslum við fréttina. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert