Afhenti kröfur um þjóðlendur

Umrætt svæði er innan sveitarfélagsins Dalabyggðar.
Umrætt svæði er innan sveitarfélagsins Dalabyggðar.

Fjármála- og efnahagsráðherra hefur, fyrir hönd íslenska ríkisins, afhent óbyggðanefnd kröfur sínar um þjóðlendur á svokölluðu svæði 9A, þ.e. Dalasýslu að undanskildum fyrrum Skógarstrandarhreppi.

Umrætt svæði er innan sveitarfélagsins Dalabyggðar. Óbyggðanefnd, sem er sjálfstæð úrskurðarnefnd á stjórnsýslustigi, kynnir nú þessar kröfur í þeim tilgangi að ná til þeirra sem kunna að eiga öndverðra hagsmuna að gæta.

Þriggja mánaða frestur

Í tilkynningu frá óbyggðanefnd kemur fram að kröfurnar hafi birst með lögformlegum hætti í Lögbirtingablaðinu fimmtudaginn 18. febrúar 2016. Þar hafi verið skorað á þá sem telja til eignarréttinda á þjóðlendukröfusvæðis ríkisins að lýsa kröfum sínum skriflega fyrir óbyggðanefnd innan þriggja mánaða, nánar tiltekið í síðasta lagi 18. maí 2016.

„Verkefni óbyggðanefndar er að úrskurða um annars vegar kröfur fjármála- og efnahagsráðherra fyrir hönd ríkisins og hins vegar kröfur þeirra sem telja sig eiga öndverðra hagsmuna að gæta, nánar tiltekið um 1) hvaða land telst til þjóðlendna og hver séu mörk þeirra og eignarlanda, 2) hver séu mörk þess hluta þjóðlendu sem nýttur er sem afréttur og 3) hver séu eignarréttindi innan þjóðlendu,“ segir í tilkynningunni.

Þar segir einnig að óbyggðanefnd hefur þegar lokið umfjöllun um eignarlönd og þjóðlendur á 76% af landinu öllu og 92% lands á miðhálendinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert