Myndaði par á fyrsta stefnumóti

Parið var á sínu fyrsta stefnumóti. Þau fagna 30 ára …
Parið var á sínu fyrsta stefnumóti. Þau fagna 30 ára samveruafmæli í ágúst og höfðu samband við Guðmund þegar þau rákust á myndina. Ljósmynd/Guðmundur Ingólfsson.

30 ára gamlar ljósmyndir sem birtar voru í sunnudagsblaði Morgunblaðsins og á mbl.is hafa fangað augu samfélagsmiðlanotenda undanfarna sólarhringa.

Sjá umfjöllun mbl.is: Ert þú á einni mynd­inni?

Um er að ræða myndir sem Guðmundur Ingólfsson, ljósmyndari hjá Ímynd, tók í tjaldi við Bernhöftstorfuna í Reykjavík í tilefni af 200 ára afmæli Reykjavíkurborgar árið 1986.

Myndirnar eru aðallega af prúðbúnum ungmennum sem héldu afmælisdaginn hátíðlegan og hafa myndirnar vakið athygli fyrir skemmtilega tískustrauma og tíðaranda.

Guðmundur birti myndirnar í þeirri von að geta endurtekið leikinn, nú 30 árum síðar. Viðbrögðin hafa ekki látið á sér standa, myndunum hefur verið deilt á Facebook yfir 1.000 sinnum og er Guðmundur að safna saman upplýsingum um fyrirsæturnar.

„Ég er búinn að fá um það bil 14 e-mail með upplýsingum um nöfn og símanúmer, en það væri gaman að fá 25-30 nöfn. Þá væri hægt að gera alvöru seríu úr þessu,“ segir Guðmundur.

Myndirnar eru 73 talsins, en Guðmundur telur að í heildina séu um 120-150 manns á myndunum. 

„Fólk hefur áhuga á þessu og svörin sem ég hef fengið eru vinsamleg og allir eru til í að sitja fyrir aftur.„ Meðal svara sem hann hefur fengið eru frá þremur vinkonum sem sátu saman á einni af myndunum.

„Þær búa allar þrjár í sömu blokkinni í dag og eru allar til í að koma aftur í myndatöku,“ segir Guðmundur.

Þá hefur par sem var á sínu fyrsta stefnumóti þetta kvöld haft samband við Guðmund. „Þau eru gift í dag og fagna því 30 ára samveruafmæli í ágúst og eru alveg til í koma í aðra töku hjá mér,“ segir Guðmundur.

Guðmundur hyggst byrja að mynda í mars en þorir ekki að segja til um hvort hann verði búinn að mynda alla í ágúst þegar Reykjavíkurborg fagnar 230 ára afmæli.

Þessar þrjár vinkonur hafa haldið hópinn í þau 30 ár …
Þessar þrjár vinkonur hafa haldið hópinn í þau 30 ár sem liðin eru frá því að myndin var tekin. Í dag búa þær allar í sömu blokkinni og hlakka til að endurtaka myndatökuna í ár. Ljósmynd/Guðmundur Ingólfsson.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert