Sérfræðingar til að laga samskipti

Sigríður Björk Guðjónsdóttir lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu.
Sigríður Björk Guðjónsdóttir lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur, í samráði við yfirstjórn embættisins, ráðið sérfræðinga til aðstoðar við að bæta samskipti innan embættisins.

Þetta kemur fram í svari innanríkisráðherra við fyrirspurn Rósu Bjarkar Brynjólfsdóttur um samskiptavanda meðal yfirmanna lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.

Í svarinu segir ráðherra að innanríkisráðuneytið hafi fundað með lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu vegna þessa. Ákveðið var að fá utanaðkomandi ráðgjafa til að greina hvort vandi væri fyrir hendi og hvernig bæri þá að taka á honum. Þessi ráðgjafi skilaði skýrslu til ráðuneytisins í lok síðasta árs.

Ekki leyst án utanaðkomandi aðstoðar

„Niðurstöður hans voru að eftir viðtöl við stjórnendur við embætti lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu hefðu komið fram skýrar vísbendingar um vanda sem snerti samskipti og samstarf. Væri hann þess eðlis að hann yrði ekki leystur án utanaðkomandi aðstoðar. Mat ráðgjafans var að ráðast yrði í aðgerðir sem miðuðu að því að taka á umræddum vanda og mælti hann með því að embætti lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu fengi utanaðkomandi hlutlausan aðila sem yfirstjórn embættisins bæri fullt traust til,“ segir í svari ráðherra.

Ólöf Nordal, innanríkisráðherra.
Ólöf Nordal, innanríkisráðherra. mbl.is/Eggert

Samskiptavandi ekki leitt til mistaka

Ráðherra var einnig spurður hvort samskiptavandinn hefði leitt til mistaka í aðgerðum lögreglu, svarar hann því að hefði það gerst hafi ráðuneytið ekki verið látið vita af því.

Þá var ráðherra spurður hvort mistök við rannsókn á fíkniefnamáli sem enduðui með 11 ára fangelsisdómi yfir hollenskri konu kölluðu á sérstaka rannsókn á starfsháttum lögreglu. Í svarinu kemur fram að ekki sé talin ástæða til að aðhafast frekar í málinu.

Frumvarp vegna meðferðar kærumála

Einnig spurði Rósa Björk hvort þörf væri að efla eftirlit með störfum og starfsháttum lögreglu. Í svarinu kemur fram að ráðherra hafi skipað nefnd í janúar í fyrra sem átti að fjalla um meðferð kærumála og kvartana á hendur lögreglu. Tillögum hennar var skilað í október og hafa þær verið færðar í frumvarpsform og eru til umsagnar á vef ráðuneytisins til og með næsta miðvikudegi.  Í kjölfarið verður það lagt fyrir Alþingi.

Hér má sjá svar innanríkisráðherra í heild sinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert