Iðrast birtingarinnar sáran

Björn Jón Bragason, ritstjóri Reykjavíkur vikublaðs.
Björn Jón Bragason, ritstjóri Reykjavíkur vikublaðs. mbl.is/Rax

Björn Jón Bragason, ritstjóri Reykjavíkur vikublaðs, segist iðrast þess sáran að hafa birt fjögurra ára gamalt viðtal í blaðinu þann 13. febrúar sl.

Þetta kemur fram í frétt RÚV þar sem greint er frá því að langt og ítarlegt viðtal við Pétur Sveinbjarnarson, fyrrverandi framkvæmdastjóra Þróunarfélags Reykjavíkur, sem vísað er í á forsíðu blaðsins hafi fyrst birst í september 2012 á vefnum 101Reykjavik.is.

Sá vefur er rekinn af Samtökum kaupmanna og fasteignaeigenda við Laugaveg og á vef samtakanna er Björn Jón titlaður framkvæmdastjóri þeirra, en viðtalið fjallar m.a. um skoðanir Péturs á skipulagsmálum borgarinnar.

Í umfjöllun RÚV kemur fram að afar litlar breytingar séu gerðar á viðtalinu milli ára og miðla, aðeins sé bætt við nokkrum millifyrirsögnum auk þess sem spurningar eru nú í viðtalinu sem ekki voru við fyrstu birtingu.

Hefur RÚV það eftir Birni Jóni að honum hafi þótt efnið það áhugavert að það þyldi endurbirtingu og að hann hafi ekki áttað sig á mistökunum sökum reynsluleysis. Þá mun hann hafa staðfest að ábyrgðarmaður blaðsins og útgefandi, Björn Ingi Hrafnsson, hafi veitt honum alvarlegt tiltal.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert