Stofnaði lífi vegfarenda í hættu

Maðurinn var ákærður fyrir að hafa í tvígang árið 2013 …
Maðurinn var ákærður fyrir að hafa í tvígang árið 2013 ekið bifreið án ökuréttinda og undir áhrifum fíkniefna. Í bæði skiptin reyndi hann að flýja undan lögreglu sem stöðvaði för hans með ákeyrslu. mbl.is/Þórður

Héraðsdómur Reykjaness hefur dæmt karlmann í tíu mánaða fangelsi, þar af níu mánuði skilorðsbundið, fyrir fjölmörg brot. Hann ók m.a bifreið tvívegis án ökuréttinda, undir áhrifum fíkniefna og sinnti ekki stöðvunarmerkjum lögreglu. Í bæði skiptin stofnaði hann lífi farþega og annarra vegfarenda, þar á meðal lögreglu, í hættu.

Varð lögregla, í bæði skiptin, að stöðva för mannsins með ákeyrslu. Fram kemur í dómnum, að brot mannsins, sem játaði sök, megi að einhverju leyti rekja til andlegra veikinda hans.

Þá segir að frestun á fullnustu refsingarinnar sé bundin því skilyrði að á skilorðstímanum neyti maðurinn hvorki áfengis né ávana– og fíkniefna, að hann sæti umsjón lækna á þann hátt að hann geri við þá skriflegan samning, innan hálfs mánaðar frá uppkvaðningu dómsins um að undirgangast sérhæft meðferðarúrræði og lyfjagjöf, og að hann samþykki að tekið verði blóð- og/eða þvagsýni allt að tvisvar í mánuði í því skyni að rannsaka hvort þau innihaldi áfengi- og/eða fíkniefni.

Þá er áréttuð er ævilöng svipting ökuréttinda ákærða.

Ríkissaksóknari ákærði manninn í mars 2015 fyrir brot sem hann framdi árið 2013 er hann var 22 ára gamall.

Þrjár lögreglubifreiðar komu akandi á móti honum

Hann var m.a. ákærður fyrir brot gegn umferðar-, lögreglu- og hegningarlögum með því að hafa aðfaranótt 2. október 2013 ekið bifreið sviptur ökurétti og óhæfur til að stjórna henni örugglega vegna áhrifa ávana- og fíkniefna (í blóði mældist amfetamín 110 ng/ml og tetrahýdrókannabínól 2,0 ng/ml), suður Norðurbraut í Hafnarfirði, án þess að sinna stöðvunarmerkjum lögreglu. Hann ók áfram um götur Hafnarfjarðar, þar sem hann ók gegn akstursstefnu. Raskaði maðurinn þannig umferðaröryggi á alfaraleið og stofnaði á ófyrirleitinn hátt í augljósan háska lífi og heilsu farþega bifreiðarinnar svo og annarra vegfarenda, þ. á m. lögreglumanna sem reyndu að stöðva aksturinn. 

Nánari lýsingu er að finna í ákærunni. Þar kemur fram að lögreglan gerði m.a. tilraun til að þvinga ökumanninn til að stöðva aksturinn á Hjallabraut og er hann kom að gatnamótum Hjallabrautar og Reykjavíkurvegar beygði hann norður Reykjavíkurveg, inn á rangan vegahelming og gegn akstursstefnu. Þar varð hann þess áskynja að þrjár lögreglubifreiðar komu akandi á móti honum. Þá hægði hann á sér og tók 180 gráðu beygju á akbrautinni nærri gatnamótunum, ók áfram inn á aðrein að Hjallabraut þar sem lögreglan stöðvaði akstur hans með ákeyrslu.

Veitt eftirför í gegnum Hafnarfjörð, Garðabæ og Kópavog

Þá var hann ákærður fyrir brot gegn umferðar-, lögreglu- og hegningarlögum, með því að hafa aðfaranótt 5. desember ekið bifreið sviptur ökurétti og óhæfur til að stjórna henni örugglega vegna áhrifa ávana- og fíkniefna (í blóði mældist amfetamín 235 ng/ml), norður Bæjarhraun í Hafnarfirði, án þess að sinna stöðvunarmerkjum lögreglu og við eftirför lögreglu ekið um götur Hafnarfjarðar, Garðabæjar og Kópavogs, gegn rauðu ljósi, yfir leyfilegum hámarkshraða, með allt að 120 km hraða á klst., gegn akstursstefnu og m.a. tvisvar um hringtorg og án þess að gefa nokkru sinni stefnuljós, allt þar til bifreiðin stöðvaðist á Reykjanesbraut á móts við verslunina Kost í Kópavogi. Raskaði ákærði þannig umferðaröryggi á alfaraleið og stofnaði á ófyrirleitinn hátt í augljósan háska lífi og heilsu farþega bifreiðarinnar svo og annarra vegfarenda, þ. á m. lögreglumanna sem reyndu að stöðva aksturinn.

Hann er einnig ákærður fyrir gripdeildir og fjársvik.

Fangelsisvist hefði neikvæð áhrif á geðhag

Fram kemur í dómi héraðsdóms, að samkvæmt sakavottorði hafi manninum tíu sinnum verið gerð refsing frá árinu 2010, m.a. vegna ölvunaraksturs og akstur án ökuréttinda. Þá hlaut hann þriggja mánaða fangelsisdóm fyrir auðgunarbrot. 

Fram kemur í dómnum, að brot mannsins megi að einhverju leyti rekja til andlegra veikinda hans. Í málinu var lagt fram vottorð sérfræðilæknis. Í því kemur meðal annars fram að maðurinn sé með þokkalegt innsæi í sjúkdóm sinn og góðar líkur á því að hægt sé að halda einkennum niðri ef ákærði þiggi áfram meðferð og haldi sig frá áfengi og vímuefnum. Æskilegt sé að hann fari í meðferð og fái sérhæft úrræði fyrir unga einstaklinga með geðrofssjúkdóma. Sé búið að sækja um þá meðferð fyrir hann. Þá sé nauðsynlegt fyrir hann að þiggja áfram forðasprautur með geðrofslyfi. Mælti læknirinn með því að tekið yrði tillit til veikinda hans, enda líklegt að fangelsisvist hefði neikvæð áhrif á hans geðhag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert