Verk eftir Kjarval slegið á 3,2 milljónir

96 verk seldust á listmunauppboði hjá Galleríi Fold. Dýrasta verkið …
96 verk seldust á listmunauppboði hjá Galleríi Fold. Dýrasta verkið fór á 3,2 m.kr. en það ódýrasta á 5.000 kr. mbl.is/Golli

„Þetta gekk vonum framar. Það var húsfyllir og vel flest verkin seldust,“ segir Jóhann Ágúst Hansen, uppboðshaldari og framkvæmdastjóri hjá Galleríi Fold, en í gærkvöldi fór fram listmunauppboð í húsnæði Foldar við Rauðarárstíg. Alls voru 25 verk seld á hærra verði en uppsett verð eða á uppsettu verði af verkunum 97. Ekkert boð barst í eitt, verk eftir Jón Gunnarsson sem var verðmetið á 30-40 þúsund krónur. 38 verk voru seld á undir 100 þúsund krónur en 15 verk fóru á eina milljón eða meira. Má þar nefna verk eftir Ásgrím Jónsson sem var metið á 1,5 til 1,8 milljónir króna en seldist á tvær milljónir.

Tæplega 100 verk seldust á uppboðinu en þar á meðal voru mörg eftir þekkta listmálara eins og Jóhannes S. Kjarval, Erró og Guðmundu Andrésdóttur.

Dýrasta verkið var slegið á 3,2 milljónir króna en það var Smalinn eftir Jóhannes S. Kjarval. „Margar myndir eftir Kjarval eru að fara á verðbilinu 1,5-2 milljónir,“ segir Jóhann en mikil ásókn hafi verið í myndina á uppboðinu.

Sex verk voru á uppboðinu eftir Jóhannes S. Kjarval. Tvö þeirra fóru á hærra verði eða sama verði og matið hljóðaði upp á. Það er fyrrnefnt verk sem fór á 3,2 milljónir króna og tússverk sem fór á 120 þúsund krónur en verðmat var 90-110 þúsund krónur.

Metin á 22-26,6 milljónir en seld á 14,9 milljónir

Níu verk voru verðmetin fyrir uppboðið á tvær milljónir eða meira. Alls voru verkin níu metin á 22-26,6 milljónir króna en heildarsöluverð þeirra var 14,9 milljónir króna.

Verk eftir Katrínu Friðriks var metið á 3,5-4 milljónir króna en seldist á 1,9 milljónir króna. Verk eftir Ásgrím Jónsson var metið á 2-2,5 milljónir króna en seldist á 1,6 milljónir króna. Verk eftir Þórarinn B. Þorláksson var metið á 2-2,4 milljónir króna en seldist á eina milljón króna. Annað verk eftir Þórarinn var metið á 1,8-2,2 milljónir króna og seldist á 1,1 milljón króna.

Verk eftir Jón Stefánsson var metið á 2-2,5 milljónir króna en seldist á 1,6 milljónir króna. Verk eftir Nínu Tryggvadóttur var metið á 2,2-2,5 milljónir króna og seldist á 1 milljón króna. Verk eftir Jóhannes Kjarval af Dyrfjöllum var metið á 2-3 milljónir króna en seldist á 1,3 milljónir króna. Verkið sem selt var á 3,2 milljónir eftir Kjarval var metið á 3-3,5 milljónir króna fyrir uppboðið. Verk Louisu Matthíasdóttur var metið á 3,5-4 milljónir króna og seldist á 2,2 milljónir króna.

Hér er hægt að skoða niðurstöðu uppboðsins í heild

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert