Fá nóg og fara heim af spítalanum

Dregið hefur úr aðsókn á bráðamóttöku Landspítalans síðasta sólarhring.
Dregið hefur úr aðsókn á bráðamóttöku Landspítalans síðasta sólarhring. mbl.is/Golli

Eftir að Ólafur Baldursson, framkvæmdastjóri lækninga á Landspítalanum, kom fram í fjölmiðlum í gærkvöldi hefur dregið verulega úr aðsókn á bráðamóttöku spítalans. Þrátt fyrir það er enn þröng á þingi, ekki eru mörg skoðunartæki laus og sjúklingar hafa beðið í allt að fjóra sólarhringa á bráðamóttöku eftir að vera lagðir inn á lyflækningasvið spítalans.

Þetta segir Hilmar Kjartansson, yfirlæknir á bráðamóttöku spítalans, í samtali við mbl.is. Mikið álag hefur verið á Landspítalanum síðustu daga en nú ganga fjórar öndunarfærasýkingar; inflúensa, RS-vírusinn, metapneumvírus og parainflúensa.

Hann segir starfsfólk spítalans hafa áhyggjur af því að verið sé að útskrifa fólk of fljótt en sumir fá hreinlega nóg af því að vera á þvælingi á spítalanum á meðan á innlögninni stendur og vilja fara heim. Eitthvað er um að gamalt og veikt fólk fái óráð eftir legu á göngum spítalans. 

Margir hafa leitað til bráðamóttöku spítalans síðustu daga með inflúensulík einkenni en hefur fólk verið hvatt til að leita frekar til heilsugæslustöðva og Læknavaktarinnar til að fá staðfestingu á veikindum sínum.

Gamalt fólk fær óráð á göngunum

„Við reynum eftir föngum að koma fólki inn á stofu, sérstaklega vegna minni aðsóknar á bráðamóttöku síðasta sólarhringinn. Frá því í gærkvöldi hafa losnað stæði þar sem hægt er að setja fólk inn en fram að því hefur þetta fólk kannski verið á göngunum, jafnvel löngum stundum og það fer rosalega illa með gamalt og veikt fólk,“ segir Hilmar.

Fólkið komi á spítalann með vandamál sem gera það að verkum að það þarf að leggjast inn en er ekki það bráðveikt að það geti ekki verið á gangi til að rýma fyrir nýjum sjúklingum. Á ganginum er ekki hægt að slökkva ljósin og þar er ekki næði.

„Það líður nú oft ekki á löngu áður en þetta gamla fólk fer að fá óráð ofan á veikindin sem drógu það á spítalann. Um leið og gamalt fólk er komið með óráð út af því þá er hætt við því að spítalainnlögnin lengist,“ útskýrir Hilmar.

Hilmar segir nokkuð um að fólk hafi leitað til bráðamóttöku með mál sem hægt sé að afgreiða á heilsugæslustöð eða á Læknavaktinni. Það sé hugsanlega vegna þess að fólk viti að þegar það leitar á bráðamóttöku sé ekki mjög löng bið þar til að það fær að hitta lækni.

Á þvælingi milli herbergja allan tímann 

Hafið þið áhyggjur af því að verið sé að útskrifa sjúklinga of fljótt?

„Já, engin spurning. Við sjáum það að þegar útskriftarpressan er svo mikil þegar það bíður heil legudeild innlagnar á bráðamóttökunni að allir sem eru nokkurn veginn heimferðarfærir eru sendir heim.

Í sumum tilfellum fóru þeir heim aðeins of snemma og koma aftur á spítalann í gegnum bráðamóttökuna. Það getur verið erfitt að ákveða með fullri vissu í svona ástandi hver er algjörlega tilbúinn að fara heim,“ segir Hilmar.

Þá kemur einnig fyrir að sjúklingar sem hafa verið á þvælingi á milli herbergja alla innlögnina; á gangi, á setustofum, baðherbergjum eða annars staðar fær nóg og ákveður að fara heim. „Það fer þá of snemma og endar síðan aftur hjá okkur,“ segir Hilmar.

„Í sjálfu sér eru svo margir á spítalanum sem hafa lokið meðferð af hálfu spítalans og ættu að vera komnir í önnur úrræði, eins og á hjúkrunarheimili eða þá að það væri búið að byggja miklu betur upp heimaþjónustu á fyrir aldraða einstaklinga þar sem þeir geta verið í öryggi og endurhæfingu lengur heima fyrir,“ bætir hann við.

Frétt mbl.is: Inflúensan fer enn vaxandi

Frétt mbl.is: Fjórar veirur í gangi samtímis

Margir hafa leitað til bráðamóttöku spítalans síðustu daga með inflúensulík …
Margir hafa leitað til bráðamóttöku spítalans síðustu daga með inflúensulík einkenni. mbl.is/Golli
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert