Hálftómt skip á leið til Rotterdam

Rio Tinto Alcan rekur álverið í Straumsvík.
Rio Tinto Alcan rekur álverið í Straumsvík. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Flutningaskip Rio Tinto í Straumsvík verður gert sjóklárt í fyrramálið með aðeins um einn tíunda hluta hefðbundins álfarms um borð.

Hafnarstarfsmenn byrja að gera skipið klárt klukkan 8 og leggur það úr höfn með farminn til Rotterdam í Hollandi.

„Það fer ekkert meira ál um boð. Áður en verkfallið skall á var búið að setja pínulítið um borð og síðan byrjaði hópur að setja ál um borð. Það var stoppað,“ segir Gylfi Ingvarsson, talsmaður starfsmanna í Straumsvík, og á þar við yfirmenn sem gengu í störf hafnarverkamanna. 

Eiga ekki von á frekari verkfallsbrotum

Verkfallsverðir verða á svæðinu til að fylgjast með því að allt gangi vel fyrir sig. „Yfirmenn hörfuðu frá því að vinna frekar í útskipun af hálfu fyrirtækisins. Við eigum ekki von á frekari verkfallsbrotum af þeirra hálfu núna. En við verðum á verði til að fyrirbyggja að ekki verði gripið til annarra aðgerða. Ég á ekki von á því enda væri það mjög óskynsamlegt og það myndi flækja málin enn frekar,“ segir Gylfi.

Næsta skip á mánudaginn

Næsta flutningaskip kemur í höfn í Straumsvík næstkomandi mánudag og þá kemur ljós hvort hægt verður að fylla það af áli eða ekki. Allt fer það eftir því hvort verkfall hafnarverkamanna vegna útskipunar á áli verður enn við lýði.

Fundað var í dag hjá ríkissáttasemjara, án árangurs. Nýr fundur hefur ekki verið boðaður.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert