Milestone-málið komið á dagskrá Hæstaréttar

Sakborningar og verjendur þeirra í héraðsdómi á sínm tíma.
Sakborningar og verjendur þeirra í héraðsdómi á sínm tíma. mbl.is/Rósa Braga

Milestone-málið svokallaða er komið á dagskrá Hæstaréttar þann 7. apríl. Ríkissaksóknari áfrýjaði málinu eftir að allir sakborningar voru sýknaðir í héraðsdómi í desember árið 2014.

Bræðurnir Karl og Steingrímur Wernerssynir voru í málinu ákærðir ásamt Guðmundi Ólasyni fyrir að hafa látið Milest­one fjár­magna kaup bræðranna á hluta­fé syst­ur þeirra, Ing­unn­ar, í fé­lag­inu. Hafi verið með öllu óvíst frá hverjum, hvenær eða með hvaða hætti Milestone fengi fjármunina til baka.

Segir í ákærunni að með því að hafa fært sem eign á efnahagsreikning félagsins óljós­ar, munn­leg­ar kröf­ur á hend­ur eigna­litlu af­l­ands­fé­lagi, Milest­one Import Export, upp á tæpa 5,2 millj­arða króna hafi ákærðu komist hjá því að fjármögnun hlutabréfakaupanna kæmi til lækkunar á bókfærðu eigin fé Milestone. Krafan var án trygginga og segir í ákærunni að hún hafi skapað félaginu verulega fjártjónsáhættu.

Með þessu hafi bræðurnir haldið full­um eign­ar­ráðum yfir fé­lag­inu, beint og í gegn­um annað fé­lag, og eignuðust þorra hluta­fjár í Milest­one, án þess að leggja fé til kaup­anna og án þess að eigið fé fé­lags­ins minnkaði. Þrátt fyr­ir að hafa ekki lagt til neitt fé til að kaupa hlut­ina af syst­ur sinni runnu all­ar arðgreiðslur Milest­one á ár­un­um 2006 til 2007 og um 98,4% af arðgreiðslum árs­ins 2008 til bræðranna, alls millj­arður króna.

Þá voru end­ur­skoðend­urn­ir Mar­grét Guðjónsdóttir og Sig­urþór C. Guðmundsson ákærð fyr­ir meiri­hátt­ar brot á lög­um um árs­reikn­inga og lög­um um end­ur­skoðend­ur við end­ur­skoðun sína á árs­reikn­ing­um Milest­one og sam­stæðureikn­inga sam­stæðunn­ar fyr­ir árin 2006 og 2007. Þau, auk Hrafn­hild­ar Fanngeirsdóttur, eru ákærð fyr­ir brot á lög­um um end­ur­skoðend­ur fyr­ir að hafa bætt inn í end­ur­skoðun­ar­möppu lána­samn­ingi á milli Milest­one og Milest­one Import Export til að láta líta út fyr­ir að hann hafi verið til staðar við gerð og end­ur­skoðun árs­reikn­ings fyr­ir árið 2006. Þá er þeim gefið að sök að hafa bætt við end­ur­skoðun­ar­möppu Milest­one eft­ir að fé­lagið var tekið til gjaldþrota­skipta haustið 2009.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert