Myndu klæðast sömu fötum í dag

Runólfur og Gerða stilltu sér upp fyrir ljósmyndara á 200 …
Runólfur og Gerða stilltu sér upp fyrir ljósmyndara á 200 ára afmæli Reykjavíkurborgar í ágúst árið 1986. Ljósmynd/Guðmundur Ingólfsson

„Myndina sáum við á laugardagsmorgun á mbl.is og fljótlega varð Facebook undirlögð af umfjöllun um myndirnar,“ segir Gerða Theodóra Pálsdóttir.

Mynd af henni og eiginmanni hennar, Runólfi Þórhallssyni er í hópi þeirra mynda sem Guðmundur Ingólfsson, ljósmyndari, tók í miðbæ Reykjavíkur á 200 ára afmæli borgarinnar í ágúst 1986. Myndirnar voru birtar á mbl.is um helgina í þeirri von að finna sem flestar fyrirsæturnar því Guðmundur hyggst endurtaka leikinn, nú 30 árum síðar.

Sjá frétt mbl.is: Myndaði par á fyrsta stefnumóti

Þetta var þó ekki í fyrsta sinn sem Gerða og Runólfur litu myndirnar augum. „Ég hafði samband við Guðmund fyrir brúðkaupið okkar og gaf svo eiginmanninum myndirnar í morgungjöf. Þessar myndir hafa því fylgt okkur lengi og tvær þeirra hafa hangið síðan á heimili okkar í ramma.“

Ástin kviknaði á Þjóðhátíð

Gerða og Runólfur voru nýbyrjuð að hittast á þessum tíma, sumarið 1986. „Við höfðum vitað af hvort öðru sem samnemendur í Menntaskólanum við Hamrahlíð en höfðum svo náð saman á Þjóðhátíð í Eyjum fyrr í mánuðinum. Þegar fólk var að byrja saman kostaði alltaf smá kjark að taka upp símann og hringja fyrir tíma Facebook og Snapchat en það tókst og þetta var í annað skiptið sem við hittumst og fórum út saman.“

Aðspurð segjast þau muna vel eftir deginum. „Sólin skein, við hittum vini í bænum og skemmtum okkur vel fram eftir kvöldi. Við áttum marga sameiginlega vini þannig að þetta small allt saman. Það stoppaði okkur ungur maður og bað okkur um að koma inn í tjaldið í þessa myndatöku, þannig að þetta var alveg óundirbúið, við gátum ekki planað “look-ið” neitt áður,“ segir Gerða.

Skór úr áklæðaefni og köflóttar gallabuxur

Tískan sem einkenndi þetta tímabil hefur vakið mikla lukku meðal þeirra sem hafa skoðað myndirnar. En hugsuðu Gerða og Runólfur mikið um að tolla í tískunni á þessum árum?  

„Ég spáði mikið í tískuna og fötin sem ég er í á myndinni voru keypt í Gallerí og Evu sem seldu In Wear og fleira, það var uppáhalds búðin mín. Skórnir vöktu alltaf mikla lukku þar sem þeir voru ekki alveg hefðbundnir og úr svona áklæðaefni,“ segir Gerða.

Runólfur klæddist hermannajakka sem hann fékk frá stóru systur sinni og köflóttum gallabuxum sem voru keyptar úti í Hamborg. „Ekki má svo gleyma klossunum sem ég vildi helst ekki fara úr,“ segir Runólfur.

„Fötin voru á þessu tímabili oftast risastór og þægileg að sama skapi. Það var mikil fjölbreytni í tískunni og ekki svo ólík mörgu sem er vinsælt í dag. Ég held ég myndi alveg vera til í að ganga í þessum fötum í dag. En ég er samt ekki viss um að ég vilji sjá Runólf aftur í þessum gallabuxum,“ segir Gerða.

Gerðu og Runólfi finnst ekki ólíklegt að Guðmundur ljósmyndari muni …
Gerðu og Runólfi finnst ekki ólíklegt að Guðmundur ljósmyndari muni reyna að plata þau út í að setja sig í nákvæmlega sömu stellingar og fyrir 30 árum þegar myndatakan verður endurtekin í ár. Ljósmynd/Guðmundur Ingólfsson

Hlakka til að endurtaka leikinn

Gerða og Runólfur hafa verið óaðskiljanleg frá því sumarið 1986. „Við giftum okkur 6 árum síðar, 18.júlí 1992, og eigum tvö börn, stelpu sem er fædd 1993 og strák sem er fæddur 2000,“ segir Gerða.

Gerða sendi Guðmundi tölvupóst þegar hún sá myndina á mbl.is og segir þau hjónin hlakka til að heyra frá Guðmundi, en tímasetningin hefur ekki verið staðfest.

Aðspurð hvort þau muni setja sig í nákvæmega sömu stellingar og fyrir 30 árum segir Gerður: „Stellingin í myndatökunni er eitthvað sem Guðmundur stakk upp á. Eins og sést kannski á myndunum vorum við svolítið feimin við hvort annað og mér fannst skrítið að eiga að sitja svona í fanginu á Runólfi. Okkur þykir ekki ólíklegt að hann reyni að plata okkur út í að gera þetta aftur en það verður bara að koma í ljós hvort það tekst.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert