Vill ekki snúa aftur til 1938

Magnús Norðdahl, Gylfi Arnbjörnsson og Rannveig Rist, forstjóri Rio Tinto …
Magnús Norðdahl, Gylfi Arnbjörnsson og Rannveig Rist, forstjóri Rio Tinto Alcan á Íslandi, ræddu málin í morgun ásamt lögfræðingi álversins. Mynd/ASÍ

„Ef atvinnulífið ætlar að færa kjarabaráttuna aftur á það stig sem það var fyrir 1938 myndi ég ráðleggja atvinnurekendum að endurhugsa það betur,“ segir Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, og á þar við vinnulöggjöfina sem var sett árið 1938 til að móta verkföllum lagalegan farveg.

„Fram til þess endaði verkfallsvarsla nánast í handalögmálum. Þannig varð þessi réttur til. Það er þekkt í sögunni þegar menn slógust og þess vegna ákváðu menn að semja stjórnarskrá vinnumarkaðarins til að marka báðum aðilum skýrar með hvaða hætti þetta færi fram,“ segir hann.

Stutt fundarhöld á hafnarbakkanum

Yfirmenn í álverinu í Straumsvík gengu í störf hafnarverkamanna í morgun við að flytja ál um borð í flutningaskip en verkfallsverðir verkalýðsfélagsins Hlífar í Hafnarfirði stóðu vaktina.

Eftir að Gylfi og Magnús Norðdahl, lögfræðingur Alþýðusambandsins, mættu á svæðið kröfðust fulltrúar verkalýðshreyfingarinnar að vinnu yfirmannanna yrði tafalaust hætt. Eftir stutt fundarhöld á hafnarbakkanum, og án nokkurra átaka, var útskipun á áli hætt. Innan við 500 tonn af áli voru þá komin í skipið en full lestað ber það um 3.800 tonn af áli.

Ekki kom til átaka í morgun.
Ekki kom til átaka í morgun. Mynd/ASÍ

Mega ekki týna sér í augnablikinu

„Það er ekki það sem við erum að gera hér í samtölum atvinnulífs og verkalýðshreyfingar þessa dagana að við ætlum ekki að færa kjarabaráttuna á frumstig síðustu aldar. Við erum að reyna að móta nýja leið og það má ekki vera þannig að menn týni sér í augnablikinu í deilunni um ISAL og rústi öllum samskiptum á vinnumarkaði í leiðinni,“ segir Gylfi,

Einróma niðurstaða Félagsdóms

Hann tekur fram að niðurstaða Félagsdóms í gær um að verkfallið væri löglegt, hafi verið einróma. Dómararnir voru fimm talsins, þar á meðal einn skipaður af atvinnurekendum.

„Ég held að Samtök atvinnulífsins verði að ígrunda málið betur. Við teljum okkur vera í fullum rétti til að stoppa brot og við gerðum það í morgun með kurteisum en ákveðnum hætti.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert