80.128 undirskriftir komnar

Landspítali við Hringbraut.
Landspítali við Hringbraut.

Yfir 80 þúsund Íslendingar á kosningaaldri hafa skrifað undir áskorun sem Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar setti af stað varðandi endurreisn heilbrigðiskerfisins. Alls eru undirskriftirnar 80.128 talsins.

Aðeins einu sinni áður hafa jafn margir skrifað undir undirskriftarlista hér en það var árið 2009 þegar 83 þúsund mótmæltu hryðjuverkalöggjöf Breta. Það var  InD­efence hóp­ur­inn sem söfnuðu þeim undirskriftum en íbúar annarra landa rituðu einnig þar undir.

Á vefnum Endurreisn er hægt að skrifa undir áskorun um að Alþingi verji árlega 11% af vergri landsframleiðslu til reksturs heilbrigðiskerfisins. 

„Heilbrigðiskerfi er einn af hornsteinum nútímasamfélags og sýnir vilja þess til þess að hlúa að þeim sem eru sjúkir og meiddir. Gott heilbrigðiskerfi endurspeglar sjálfsagða samhygð en lélegt heilbrigðiskerfi  óásættanlegan kulda gagnvart þeim sem eru hjálpar þurfi. Það er okkar mat að á síðasta aldarfjórðungi hafi stjórnvöld vannært íslenskt heilbrigðiskerfi, að  því marki að það sé ekki lengur þess megnugt að sinna hlutverki sínu sem skyldi.

Það hefur ekki fylgt framþróun í læknisfræði, hvorki hvað snertir notkun á tækjabúnaði né bestu lyfjum og helstu stofnanir þess eru hýstar á þann veg að það kemur í veg fyrir að hægt sé að veita nægilega mikla og góða þjónustu. Hnignun heilbrigðiskerfisins hefur að mestu leyti verið óháð því hvaða stjórnmálaflokkar hafa verið  við völd vegna þess að hún hefur verið stöðug og samfelld.

Íslendingar eyða því sem nemur 8.7% af vergri landsframleiðslu í heilbrigðismál og er það langt undir meðaltali á Norðurlöndum. Það er mat þeirra sem gerst þekkja til að við þurfum að eyða allt að 11% af vergri landsframleiðslu í heilbrigðismál vegna þess að við erum fá og dreifð sem gerir þjónustuna dýrari en meðal stærri og þéttbýlli þjóða. Þar sem kjörnir fulltrúar þjóðarinnar um aldarfjórðungsskeið hafa ekki haft að því frumkvæði að fjármagna heilbrigðiskerfið eins og skyldi, ætlum við undirrituð að taka frumkvæðið,“ segir á vefnum Endurreisn.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert