Dæmdir fyrir árás á fulltrúa lögreglustjóra

Kveikt var í bíl fulltrúa lögreglustjórans.
Kveikt var í bíl fulltrúa lögreglustjórans. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Hæstiréttur hefur dæmt Tómas Helga Jónsson í þriggja og hálfs árs fangelsi og Garðar Hallgrímsson í tveggja og hálfs árs fangelsi fyrir brot gegn valdstjórninni. Tómast réðist, að undirlagi Garðars, með ofbeldi á fulltrúa lögreglustjóra á heimili hans í nóvember 2014.

Hefur Hæstiréttur þar með staðfest dóm Héraðsdóms Norðurlands eystra sem féll í júlí á síðasta ári. 

 Árásin átti sér stað á heimili fulltrúans að nóttu til, og þótti hún að öllu leyti alvarleg og ófyrirleitin, að því er segir í dómi Hæstaréttar. Hafði Garðar heitið Tómasi 500.000 kr. fyrir verkið þar sem Garðar var ósáttur við afgreiðslu fulltrúans á sakamálum honum tengdum.

Knúði dyra og sló fulltrúann

Fram kom í ákæru að Tómas, sem huldi andlit sitt og var vopnaður 400 g átaksskafti, gekk heim til fulltrúans og knúði þar dyra. Er fulltrúinn opnaði dyrnar sló Tómas hann í handlegginn en fulltrúanum tókst fljótlega að loka dyrunum og læsa.

Í kjölfar árásarinnar hellti Tómas bensíni yfir bifreið sem var í eigu fulltrúans og kveikti svo í í tuskum sem stungið hafði verið í tvær glerflöskur með bensíni í. Flöskunum var síðan kastað í bifreiðina. Olli það eldsvoða sem hafði í för með sér almannahættu, en eldurinn breiddist út með þeim afleiðingum að mikið eignatjón varð á bifreiðinni en eldurinn var slökktur af lögreglu og slökkviliði.

Tómast var jafnframt sakfelldur fyrir tilraun til fjárkúgunar, þjófnað og stórfelld eignaspjöll.

Ekkert kom fram um vinfengi fulltrúans og héraðsdómara

Ekki var fallist á það með Garðari að það leiddi til vanhæfis héraðsdómara að starfsstöðvar hans og fulltrúans hefðu verið í sama húsi og að þeir hefðu átt hefðbundin samskipti vegna starfa sinna. Þá þótti ekkert fram komið í málinu um vinfengi þeirra og var ómerkingarkröfu Garðars því hafnað.

Við ákvörðun refsingar Garðars var litið til þess að hann hafði hlotið dóm í Hæstarétti þar sem hann var dæmdur í 10 mánaða fangelsi, þar af 7 mánuði skilorðsbundið, í tvö ár fyrir brot gegn 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga. Með vísan til 60. gr. sömu laga var skilorðshluti þess dóms tekinn upp og honum ákveðin refsing í einu lagi fyrir bæði málin eftir reglum 77. og 78. gr. laganna.

Þá voru brot Tómasar hegningarauki við dóm sem hann hafði hlotið í mars árið 2015 þar sem hann var sakfelldur fyrir fjölmörg brot.

Alvarlegt og ófyrirleitið brot

Að auki var litið til þess að brot Garðars og Tómasar gegn fulltrúanum var framið í félagi, á heimili hans að nóttu til, og þótti að öllu leyti alvarlegt og ófyrirleitið.

Á hinn bóginn hafði Tómas játað brot sín að mestu fyrir dómi og lýst yfir iðrun vegna háttseminnar. Þá hafði Garðar leitað sér aðstoðar á sjúkrastofnun vegna áfengis- og vímuvanda.

Að öllu þessu virtu var refsing Tómasar hæfilega ákveðin þrjú ár og sex mánuðir og refsing Garðars tvö ár og sex mánuðir. 

Frétt mbl.is: „Nenni ekki að lifa lífinu hræddur“

 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert