Lýsir mikilli vanþekkingu

Björg og Hákon telja að sjónarmið nemenda hafi ekki verið …
Björg og Hákon telja að sjónarmið nemenda hafi ekki verið tekin til greina .

Nemendur á Laugarvatni hafna algjörlega athugasemdum Nönnu Elísu Jakobsdóttur, fulltrúa nemenda í Háskólaráði Háskóla Íslands, um málefni skólans.

Nanna sagði í viðtali við mbl.is í fyrradag að nemendur væru ekki að fá eins góða kennslu og þeir gætu verið að fá og á Facebook síðu sinni sagði hún ómögulegt að tryggja gæði námsins með svo fámennum nemendahópi.

Þau Björg Rutardóttir og Hákon Arnar Jónsson eru á þriðja ári við skólann og segjast henni algjörlega ósammála.

„Við erum öll sammála um það að okkur finnist þetta lýsa mikilli vanþekkingu,“ segir Björg.

„Námið er frábært, kennararnir eru frábærir og það er boðið upp á ótal áfanga sem erfiðara væri að bjóða uppá í borginni eins og t.d. allir útivistaráfangarnir. Við höfum fengið allt sem við höfum þurft að fá. Við fáum þau skilaboð úr vettvangskennslu að nemendur frá HÍ fái mjög góða umsögn frá vettvangskennurum um kunnáttu, þeir séu ávallt vel undirbúnir og tilbúnir í að takast á við kennslu og/eða þjálfun.

Björg segir það rangt sem Nanna haldi fram um að Háskólinn á Akureyri sé að hleypa af stokkunum sambærilegu námi enda sé þar aðeins um að ræða nýtt kjörsvið í kennaramenntun en ekki íþrótta- og heilsufræði eins og á Laugarvatni og nemendur verða því ekki íþróttafræðingar að námi loknu.

Hákon segir hvorki Nönnu né hinn fulltrúa stúdenta í Háskólaráði, Iðunni Garðarsdóttur, hafa komið á Laugarvatn til að kynna sér aðstæður eða ræða við nemendur áður en ákvörðunin var tekin.

„Okkur finnst það mjög lélegt af þeirra hálfu að vera ekki einu sinni búin að mæta á svæðið og kynna sér aðstæður og ætla síðan að fara fullyrða hitt og þetta í fjölmiðlum sem er bara engan veginn rétt,“ segir hann.

 „Mér finnst þetta ófagleg vinnubrögð af þeirra hálfu gagnvart okkur,“ segir Björg. „Okkur finnst eins og okkar skoðun skipti engu í þessu máli.   Það hefur fátt annað verið rætt síðustu daga, þetta er mikið hitamál og það eru allir ósáttir við þetta“

Björg og Hákon segja góða aðstöðu á Laugarvatni en nemendur …
Björg og Hákon segja góða aðstöðu á Laugarvatni en nemendur sækji þó einnig reynslu annað og fari t.d. árlega á skíði á Akureyri.

Ekki staðsetningunni um að kenna

„Við erum að setja saman spurningar sem við munum demba á þá sem koma hingað,“ segir Hákon um fyrirhugaðan fund sviðsstjóra menntavísindasviðs um málið á Laugarvatni í hádeginu. „Við munum sýna mikla samstöðu og láta þá skoðun okkar í ljós að við viljum hafa skólann hérna áfram.“

Hákon og Björg segja staðsetninguna hafa átt ríkan þátt í þeirri ákvörðun þeirra að fara í íþróttafræði við Háskóla Íslands og að sama gildi um stóran hluta nemendahópsins. Meðal þess sem henti háskólasamfélaginu sérlega vel sé mun lægri leiga en býðst í Reykjavík auk þess sem fyrirtaksaðstaða sé til fjölbreyttrar íþróttaiðkunar á svæðinu, sem er jú afar mikilvægt í íþróttafræðinámi. „Það er draumur í dós að vera hérna,“ segir Hákon.

Björg segist ekki hafna því að bæta þurfi úr ýmsum vandkvæðum til þess að laða fleiri nemendur að. Þau tengist þó ekki staðsetningunni heldur m.a. því að námið hafi verið lengt í fimm ár.

„Það er fækkun í fleiri deildum innan menntavísindasviðs, kennaradeildinni og svo er fækkun í íþróttafræðinni í HR líka. Við skiljum ekki hvernig þau fá það út að þetta sé bara staðsetningin,“ segir Björg og Hákon grípur inn í og segir kostnaðarmat Háskólaráðs einnig gallað.

„Nanna talaði líka um það að framkvæmdir við skólann myndu kosta 300 milljónir en við erum með frábæra íþróttaaðstöðu sem við eigum og þurfum því ekki að leigja.“

Þau benda á að þó breytingar og viðhald sé vissulega þarft þurfi þær ekki að eiga sér stað allar í einu og ekki á næsta árinu. Þau segja ástandið viðunandi og að nemendur vilji fá að minnsta kosti eitt ár í viðbót til að leggja sitt af mörkum við að bjarga skólanum.

„Alltaf þegar við höfum ætlað að auglýsa námið fáum við það svar að það séu ekki til peningar til að hjálpa okkur að auglýsa það. Okkur finnst ósanngjarnt, gagnvart skóla sem hefur verið staðsettur hér í 84 ár og útskrifað fullt af góðum íþróttakennurum úr vinsælu og virtu námi, að það sé slökkt á honum án þess að reyna.“

Glæstur hópur nemenda á Laugarvatni.
Glæstur hópur nemenda á Laugarvatni.

„Gefið Laugarvatni séns“

Eins og áður sagði fer fram fundur í dag með nemendum og starfsfólki þar sem forseti menntavísindasviðs, Jóhanna Einarsdóttir, mun sitja fyrir svörum. Ásamt Jó­hönnu munu Ástríður Stef­áns­dótt­ir, deild­ar­for­seti Íþrótta-, tóm­stunda- og þroskaþjálf­a­deild­ar, Elín Jóna Þórs­dótt­ir, deild­ar­stjóri og Björg Gísla­dótt­ir, rekstr­ar­stjóri Menntavís­inda­sviðs sitja fund­inn. Einnig verður full­trúi frá stjórn­sýslu Há­skóla Íslands á fund­in­um en Jón Atli Bene­dikts­son, rektor Há­skóla Íslands, er vant við látinn og kemst ekki til fundarins.

„Við erum ekki sátt með að rektor komi ekki af því að þó svo að við vonum það besta höfum við á tilfinningunni að hann sé ekki að hlusta á okkur. Hann sé búinn að taka sína ákvörðun og það sé sama hvað við berjumst þá sé hann ekki tilbúinn að heyra raddir okkar,“ segir Björg.

Hákon tekur undir og segir nemendur upplifa afstöðu rektors og háskólaráðs sem þrjósku. Hann sendi Jóni Atla langt bréf þar sem hann fór yfir sjónarmið nemenda. Svarið sem barst segja þau hafa litið út eins og „copy/paste“ upp úr viðtölum við rektor vegna málsins. Þegar Hákon skrifaði tilbaka barst aðeins svarið „Takk fyrir áhugann.gangi þér allt í haginn í framtíðinni

„Hann er bara búinn að bíta þetta í sig og þau eru búin að ákveða þetta og nú er ekki hægt að snúa við. Ég fann að ég hefði getað skrifað mikið lengra og ítarlegra bréf og svörin hefðu verið þau sömu.“

Hvorki Hákon né Björg eru þó tilbúin að leggja árar í bát og áður og áður en viðtalinu lýkur beinir hann orðum sínum til rektors.

„Gefið Laugarvatni meiri séns, fleiri ár til að auglýsa þetta frábæra nám sem við höfum og gera það almennilega. Fyrir þá sem eiga eftir að klára er þetta eins og blaut tuska í andlitið og hér er frábært félagslíf og frábært nám sem verður aldrei eins gott í bænum.Hér hafa margir átt bestu ár ævi sinnar og tengst vinaböndum sem endast þeim út lífið.“

Í kringum Laugarvatn eru rík tækifæri til útivistar sem er …
Í kringum Laugarvatn eru rík tækifæri til útivistar sem er mikilvægur hluti af íþróttafræðináminu.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert