Næstu skref í Straumsvík óljós

Álverið í Straumsvík
Álverið í Straumsvík Mbl.is/Árni Sæberg

Ekki er enn búið að taka ákvörðun um það hvort vinnustöðvun Verkalýðsfélagsins Hlífar í gær þegar yfirvmenn álversins reyndu að lesta áli verður kærð. Óhjákvæmilegt verður að draga úr framleiðslu í álverinu ef útflutningsbannið dregst á langinn.

Þetta segir Ólafur Teitur Guðnason, upplýsingafulltrúi Rio Tinto Alcan. Ekki stendur til af hálfu yfirmanna fyrirtækisins að reyna aftur að lesta skip fyrr en skorið verður úr um lögmæti slíkra aðgerða. „Það eru það miklir hagsmunir í húfi að það væri rétt að reyna að fá einhverja niðurstöðu í því máli,“ sagði Ólafur í samtali við mbl.is.

„Að óbreyttu stendur fyrirtækið frammi fyrir því að hafa engar tekjur um ófyrirsjáanlega framtíð vegna þessara þvingunaraðgerða. Það getur ekkert fyrirtæki búið við það lengi að geta ekki selt sína framleiðslu þ.a. ef við getum ekki selt framleiðsluna þá þurfum við að huga að því að fara að framleiða minna,“ sagði Ólafur. Hann sagði það ekki liggja fyrir á hvaða tímapunkti yrði gripið til slíkra aðgerða.

Viðræður botnfrosnar

Kjaradeilan stendur enn föst á kröfum álversins um auknar heimildir til verktöku. Samningafundur í gær var árangurslaus og ekki hefur verið boðað til nýs fundar. Ekkert hefur miðað áfram í viðræðunum síðan að þeim steytti á verktökuákvæðunum í kjarasamningum álversins fyrir um ári síðan.

„Það er aðalmálið að komast að samningaborðinu og fá einhverjar umræður um þessar sanngjörnu kröfur okkar um að sitja við sama borð og allir aðrir varðandi verktöku,“ sagði Ólafur sem segir stöðu fyrirtækisins einstaka hvað þetta varðar. „ Við höfum beðið verkalýðsfélögin um önnur dæmi um fyrirtæki sem megi t.d. ekki bjóða út mötuneytið og þeir hafa ekki getað nefnt eitt einasta dæmi um það sem að staðfestir að við erum eina íslenska fyrirtækið með þessar hömlur.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert