Ríkið dæmt til að greiða 3,6 milljónir

„Alkunna er að bílstjórum getur verið nauðsynlegt að koma við …
„Alkunna er að bílstjórum getur verið nauðsynlegt að koma við á þjónustustöðvum olíufélaga, svonefndum bensínstöðvum, svo sem til að taka eldsneyti eða sinna bifreiðum sínum, en einnig getur verið um að ræða ýmsar náttúrulega þarfir ökumannsins sjálfs. Verður að líta á stöðvanir við slíkar stöðvar sem órjúfanlegan þátt í notkun bifreiða,“ segir í dómnum. AFP

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt íslenska ríkið til að greiða konu 3,6 milljónir í slysabætur vegna afleiðingar slyss sem hún varð fyrir er hún ætlaði að taka bensín er hún var á leið heim til sín úr vinnu. Ríkið hélt því fram að með þessu hefði orðið rof á beinni leið til og frá vinnu og því hefði hún ekki átt rétt á bótum eins og hún hefði verið í starfi. 

Héraðsdómur var á öðru máli. „Alkunna er að bílstjórum getur verið nauðsynlegt að koma við á þjónustustöðvum olíufélaga [...] Verður að líta á stöðvanir við slíkar stöðvar sem órjúfanlegan þátt í notkun bifreiða,“ segir m.a. í dómi héraðsdóms.

Konan, sem starfaði á Landspítalanum, stefndi ríkinu í maí í fyrra og krafðist þessa að það  yrði dæmt til að greiða henni 3.580.614 krónur.

Ágreiningurinn snerist um það hvort konan ætti rétt á bótum samkvæmt reglum um skilmála slysatryggingar ríkisstarfsmanna skv. kjarasamningum vegna slysa sem starfsmenn verða fyrir í starfi með vísan til þess að hún hafi verið á eðlilegri leið milli vinnustaðar síns og heimilis þegar hún varð fyrir slysi 3. október 2012.

Konan metin til 18% varanlegs miska og 15% varanlegrar örorku

Ekki var deilt um afleiðingar umrædds slyss, en konan var metin til 18% varanlegs miska og 15% varanlegrar örorku vegna þess með matsgerð tveggja lækna 14. maí 2014.

Fram kemur í dómi héraðsdóms, að konan, sem starfaði í fullu starfi hjá Landspítala Háskólasjúkrahúsi, var ók bifreið er hún var á leið heim úr vinnu 3. október 2012. Hún ók sem leið lá frá starfstöð sinni á Landspítalanum austur Miklubraut og beygði upp á Höfðabakkabrú og þar til norðurs yfir Gullinbrú. Við gatnamót Gullinbrúar og Fjallkonuvegar beygði hún til hægri og því næst inn á þjónustustöð Olís. Samkvæmt stefnu var ástæða þess sú að bifreiðin var að verða bensínlaus. Þegar konan var nýbúin að keyra inn á stæði við þjónustumiðstöðina var annarri bifreið skyndilega bakkað á bifreið konunnar svo árekstur varð. Við áreksturinn kastaðist konan til og varð fyrir áverkum á hálsi og baki. Er ekki deilt um afleiðingar slyssins.

Þegar örorkumatið lá fyrir gerði lögmaður konunnar kröfu þann 16. maí 2014 um að ríkið greiddi henni slysabætur samkvæmt reglum um skilmála slysatryggingar ríkisstarfsmanna skv. kjarasamningum vegna slysa sem starfsmenn verða fyrir í starfi.

Ríkið hafnaði kröfu konunnar þar sem hún stöðvaði til að taka bensín

Ríkið greiddi konunni slysabætur 30. júní 2014 í samræmi við niðurstöðu fyrrgreindrar matsgerðar en samkvæmt reglum um skilmála slysatryggingar ríkisstarfsmanna skv. kjarasamningum vegna slysa sem starfsmenn verða fyrir utan starfs.

Eftir ítrekanir lögmanns konunnar fékk hann þau svör frá ríkinu í símtali í byrjun febrúar 2015 að litið væri svo á að með því að taka bensín hefði konan gert rof á beinni leið til og frá vinnu svo slysið ætti undir reglur nr. 31/1990 en ekki reglur nr. 30/1990. Var kröfu konunnar því hafnað.

Héraðsdómur segir eðlilegt að menn komi við á bensínstöðvum

„Alkunna er að bílstjórum getur verið nauðsynlegt að koma við á þjónustustöðvum olíufélaga, svonefndum bensínstöðvum, svo sem til að taka eldsneyti eða sinna bifreiðum sínum, en einnig getur verið um að ræða ýmsar náttúrulega þarfir ökumannsins sjálfs. Verður að líta á stöðvanir við slíkar stöðvar sem órjúfanlegan þátt í notkun bifreiða,“ segir héraðsdómur.

„Þótt ökumaður rjúfi för sín í stuttan tíma og víki nokkra tugi metra frá því sem annars myndi vera venjulegur ferill hans á leið milli vinnustaðar og heimilis verður af þessum ástæðum að telja hann eftir sem áður á eðlilegri leið milli umræddra staða. Er af þessum ástæðum þýðingarlaust þótt einungis liggi fyrir einhliða frásögn stefnanda um það í hvaða erindagjörðum nákvæmlega hún stöðvaði för sína í umrætt sinn. Er þar af leiðandi einnig fullnægt skilyrði 1. mgr. 4. gr. reglna nr. 30/1990 um skilmála slysatryggingar ríkisstarfsmanna skv. kjarasamningum vegna slysa sem starfsmenn verða fyrir í starfi, til þess að stefnandi teljist hafa verið tryggður samkvæmt 1. mgr. 3. gr. reglnanna,“ segir orðrétt í dómnum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert