Setur Geirfinnsmálið ekki í uppnám

Ögmundur Jónasson, formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar.
Ögmundur Jónasson, formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar.

Ögmundur Jónasson, formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis, hefur ekki trú á því að niðurstaða Hæstaréttar Íslands um að lög um endurupptökunefnd standist að einhverju leyti ekki stjórnarskrá muni setja endurupptöku Guðmundar- og Geirfinnsmálsins í uppnám.

Þegar Ögmundur var innanríkisráðherra skipaði hann, árið 2011, starfshóp til að fara yfir rannsókn Guðmundar- og Geirfinnsmálsins. Hópurinn komst að þeirri niðurstöðu að grundvöllur væri fyrir endurupptöku málsins.

Ögmundur hefur ekki skoðað niðurstöðu Hæstaréttar en segir að ef í lögunum séu ákvæði sem standist ekki stjórnarskrá þurfi að sjálfsögðu að endurskoða þau.

Annað gildir um endurupptöku

 „Þetta gæti átt við um ákvörðunarvald til að fella dóma úr gildi. Hvað varðar hins vegar ákvörðun um endurupptöku mála þá hlýtur allt annað að gilda þar. Endurupptökunefnd vísar þá eldri niðurstöðu dómstóla til endurmats í dómskerfinu sjálfu, ekki utan þess,“ segir Ögmundur. „Í þessu samhengi hefur endurupptökunefnd  engin afskipti af dómum,  hvorki fyrri niðurstöðu dómstóls né endurskoðari niðurstöðu. Dómstóllinn kemst sjálfur að niðurstöðu.“

Þarf leiðir til að endurmeta niðurstöður

Hann bætir við að mergur málsins sé sá að í öllum siðuðum samfélögum þurfi að vera til leiðir til að endurmeta niðurstöður dómstóla sem í ljós kemur að voru byggðar á röngum forsendum. „Dómar eins og öll mannanna verk þarfnast endurmats. Það segir sig sjálft. Ég hef ekki trú á því að þessi niðurstaða setji endurupptöku Guðmundar- og Geirfinnsmál í uppnám.“

Frétt mbl.is: Má ekki fella dóma úr gildi

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert