Laga sig að dómi Hæstaréttar

Frá Hæstarétti Íslands.
Frá Hæstarétti Íslands. mbl.is/Styrmir Kári

Endurupptökunefnd mun skoða dóm Hæstaréttar þar sem fram kom að lög um nefndina standist ekki stjórnarskrá og laga vinnulag sitt að honum, að sögn Björns L. Bergssonar, formanns nefndarinnar. Hún hafi verið skipuð til starfa af Alþingi og muni halda áfram að sinna þeim.

Í dómi sínum í máli manns sem hafði fengið endurupptöku máls síns komst Hæstiréttur að þeirri niðurstöðu að endurupptökunefnd geti ekki fellt fyrri dóma úr gildi þrátt fyrir ákvæði í lögum um nefndina þess efnis. Ákvæðið eigi sér ekki stoð í stjórnarskrá.

„Alþingi setur þessi lög um endurupptökunefnd. Við erum skipuð til starfa og þá sinnum við þeim að sjálfsögðu. Því hefur ekki verið breytt. Við munum horfa á dóm Hæstaréttar og taka mið af því í okkar störfum hver niðurstaða hans var,“ segir Björn.

Hæstiréttur sé búinn að segja að það sé ekki hlutverk stjórnsýslunefndar að fella úr gildi dóma. Að öðru leyti vill Björn ekki tjá sig um hvernig nefndin muni mögulega bregðast við dómnum enda hafi hún ekki komið saman síðan dómur Hæstaréttar féll í gær.

Skúli Magnússon, formaður Dómarafélags Íslands, sagði við mbl.is í morgun að niðurstaða Hæstaréttar kæmi ekki á óvart og að ekki hafi verið vandað nægilega til lagasetningarinnar um endurupptökunefnd. Sagðist hann telja störf nefndarinnar í uppnámi eftir niðurstöðuna í gær.

Björn segist ekki vilja taka afstöðu til mats Skúla né annarra sem hafa tjáð sig um áhrif dóms Hæstaréttar.

Fyrri fréttir mbl.is:

Útilokar ekki endurupptöku mála

Má ekki fella dóma úr gildi

Breytir engu um framtíðarmál

Björn L. Bergsson, formaður endurupptökunefndar.
Björn L. Bergsson, formaður endurupptökunefndar.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert