Fengi nauðsynlega þjónustu í Albaníu

Útlendingastofnun óskaði eftir læknisvottorði læknis um heilbrigðisástand albansks drengs sem vísað var úr landi í desember á síðasta ári. Af almennum heilbrigðisaðstæðum í heimaríki drengsins þótti ljóst að hann myndi fá alla þá nauðsynlegu heilbrigðisþjónustu og eftirlit í heimaríki sínu. 

Þetta kemur fram í svari Útlendingastofnunnar við fyrirspurn umboðsmanns Alþingis en embættið óskaði eftir að fá upplýs­ing­ar um málsmeðferð og rann­sókn um­sókna um svo­kölluð mannúðarleyfi af heil­brigðis­ástæðum. Sér­stak­lega var óskað eft­ir upp­lýs­ing­um um þessi atriði þegar um­sækj­andi er barn.

Umboðsmaður Alþingis ritaði bréfið í kjölfarið að tveimur albönskum fjölskyldum var vísað úr landi en í báðum fjölskyldunum voru veik börn. Þeim var síðar veittur íslenskur ríkisborgararéttur og komu aftur til Íslands í janúar. 

Í svarinu er eins og fyrr segir vitnað í vottorð læknis drengsins en í opinberri útgáfu bréfsins hafa allar viðkvæmar persónuupplýsingar verið fjarlægðar úr textanum og því er ekki hægt að sjá hvað stendur nákvæmlega um vottorð læknisins. Er þó því haldið fram í bréfinu að drengurinn hefði getað fengið alla nauðsynlega þjónustu í heimalandi sínu. 

Fyrri frétt mbl.is: Óskar eftir upplýsingum frá Útlendingastofnun

Útlendingastofnun sendi umboðsmanni Alþingis svar við fyrirspurninni 1. febrúar síðastliðinni en hefur birt það á heimasíðu sinni.

Í svari Útlendingastofnunar segir að bæði sé litið til almennra upplýsinga um heilbrigðiskerfi ríkja og persónubundinna aðstæðna umsækjanda þegar metin er þörf á dvalarleyfi af mannúðarástæðum á grundvelli heilbrigðissjónarmiða. Til dæmis sé litið til heimilda frá Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni (WHO), Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna (UNICEF) og í skýrslum Alþjóðlega endurreisnar- og þróunarbankans um heilbrigðiskerfi ríkja. Þá sé Handbók Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna um réttarstöðu flóttamanna ávallt höfð að leiðarljósi við úrlausn mála.

Tryggvi Gunnarsson, umboðsmaður Alþingis.
Tryggvi Gunnarsson, umboðsmaður Alþingis. Skjáskot af Alþingi.is

Geta leitað til lækna eftir greiningu á heilsufari

Jafnframt kemur fram að viðtal við umsækjanda sé mikilvægasta gagnið hvað varðar persónubundnar aðstæður hans en allir umsækjendur um alþjóðlega vernd koma til viðtals hjá Útlendingastofnun og fá þar tækifæri til að segja frá aðstæðum sínum. Umsækjanda er einnig boðið að leggja fram gögn er varða persónulegar aðstæður sínar. Þegar kemur að veikindum og sjúkdómum fólks er unnt að leita til lækna og heilbrigðisstarfsfólks eftir greiningu á heilsufari fólks.

„Staðfesti læknisfræðileg greining veikindi umsækjanda er lagt til grundvallar að hann sé haldinn þeim sjúkdómi eða kvilla sem um ræðir. Í sumum tilfellum eru frásagnir fólks af heilsufari þess ekki kannaðar sérstaklega heldur lagðar til grundvallar samkvæmt framburði, einkum þegar fólk ber við minniháttar kvillum,“ segir á vef Útlendingastofnunnar.

Telji stofnunin að umsækjandi hafi ekki tækifæri á að nýta sér annars fullnægjandi heilbrigðisþjónustu sem honum sé nauðsynleg vegna skyndilegs og lífshættulegs sjúkdóms er viðkomandi veitt dvalarleyfi með vísan til 12. gr. f laga um útlendinga nr. 96/2002.

Ávallt litið til fyrirliggjandi vottorða

Í svarinu kemur fram að Útlendingastofnun, í samráði við talsmenn umsækjenda eða samkvæmt beiðni þeirra, leiti læknisvottorða og umsagna þegar hugsanlegt er að viðkomandi veikindi geti haft áhrif á meðferð eða úrslit máls. Þegar ekki er talið að veikindi muni hafa áhrif við úrlausn máls er ekki leitað vottorða eða umsagna nema að umsækjandi eða talsmaður hans óski sérstaklega eftir því.

„Ávallt er litið til fyrirliggjandi vottorða og mats lækna þegar heilbrigðisástand umsækjenda er metið, meðal annars með tilliti til þess hvort forsvaranlegt sé að rjúfa yfirstandandi meðferð, sé henni til að dreifa. Efni vottorða af þessu tagi er almennt lagt til grundvallar við úrlausn mála án nokkurra fyrirvara enda um að ræða sérfræðivottorð sem ekki er á færi Útlendingastofnunar að vefengja,“ segir í svarinu en bætt er við að slík vottorð og aðrar læknaskýrslur fjalla aftur á móti aðeins um heilsufar viðkomandi umsækjanda en ekki gæði heilbrigðisþjónustu í heimalandi hans. „Er því ekki hægt að byggja á vottorðum sem þessum hvað varðar það hvernig heilbrigðisþjónustu er háttað í viðkomandi ríki.“

Tillit tekið til þess hvort um börn er að ræða

Í framkvæmd Útlendingastofnunar er miðað við að minna þurfi til að koma svo að barni sé veitt mannúðarleyfi, hvort sem er af heilbrigðisástæðum eða á öðrum grundvelli. Þannig gæti tiltekið mótlæti eða bágar aðstæður í heimalandi orðið grundvöllur dvalarleyfis af mannúðarástæðum í máli barns á meðan fullorðinn einstaklingur í sömu stöðu yrði ekki talin þurfa á samskonar vernd að halda. Telja verður að börn séu almennt í viðkvæmari stöðu en fullorðið fólk, einkum ef þau eru fylgdarlaus, og hefur Útlendingastofnun hliðsjón af því þegar tekin er afstaða til réttar til dvalarleyfis af mannúðarástæðum.

Að auki er farið að þeirri grundvallarreglu um að það sem sé barni fyrir bestu skuli haft að leiðarljósi og rétt barns til að njóta besta heilsufars sem hægt sé að tryggja í skilningi Barnasáttmálans. Í samræmi við 1. mgr. 24. gr. Barnasáttmálans og með hliðsjón af athugasemdum nr. 15 við sáttmálann, hefur verið litið svo á að fái barn sannanlega þá meðferð sem það þarf og hún sé fullnægjandi að magni og gæðum þá sé réttur barnsins til að njóta besta heilsufars sem hægt sé að tryggja uppfyllt hvað varðar þær heilsufarsástæður sem byggt er á.

Sé einhver vafi á því hvort barn muni sannanlega hljóta þá heilbrigðisþjónustu sem það þarf á að halda í sínu heimalandi, hvort sjúkdómur þykir svo alvarlegur að unnt sé að veita dvalarleyfi skv. 12. gr. f. eða komin á nægilega alvarlegt stig, hvort læknisaðstoð eða meðferð sem barn hljóti sé af þeim toga að unnt sé að veita leyfi 12. gr. f. eða hvort forsvaranlegt sé að rjúfa meðferð er sá vafi túlkaður barninu í hag og hagsmunir þess látnir ráða ríkjum. 

Ummæli forstjóra í Kastljósi óheppileg

Á heimasíðu Útlendingastofunar kemur fram að svarinu hafi fylgt bréf frá forstjóra Útlendingastofnunnar, Kristínu Völundardóttur. Þar segir meðal annars:

„Í bréfi umboðsmanns Alþingis er vísað til viðtals við mig í Kastljósi hinn 10. desember 2015 og ummæla minna um að mér væri ekki kunnugt um hvort gengið hefði verið úr skugga um að börn í tilteknum málum hefðu kost á heilbrigðisþjónustu í heimalandi sínu. Þessi ummæli voru afar óheppileg. Sem forstjóri Útlendingastofnunar hef ég ekki innsýn inn í hvert og eitt mál, enda afgreiðir stofnunin þúsundir mála á ári hverju og í viðtalinu, sem tekið var upp í síma, treysti ég mér ekki til að fullyrða um þetta einstaka mál. Eðlilegast hefði aftur á móti verið að ég hefði svarað þessu afdráttarlaust játandi þar sem í öllum málum af því tagi sem um ræddi væru þessi atriði athuguð – eins og kom reyndar fram í viðtalinu á almennari nótum.“

Ennfremur segir í bréfinu um rannsóknarskyldu Útlendingastofnunar:

„Stofnunin tekur rannsóknarskyldu sína mjög alvarlega, einkum hvað varðar hælisumsóknir og umsóknir um mannúðarleyfi enda er þar oft um að tefla líf fólks, frelsi og grundvallarmannréttindi þess.“

Albönsku fjölskyldurnar við komuna til landsins í janúar.
Albönsku fjölskyldurnar við komuna til landsins í janúar. mbl.is/Styrmir Kári

Hér má sjá svar Útlendingastofnunar í heild sinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert