Málatilbúnaður verulega vanreifaður

Icelandic Water Holdings flytur út vatn undir merkinu Icelandic Glacial.
Icelandic Water Holdings flytur út vatn undir merkinu Icelandic Glacial.

Hæstiréttur hefur vísað máli iGwater ehf. á hendur Icelandic Water Holdings ehf. frá dómi. Var úrskurður Héraðsdóms Suðurlands þar með staðfestur. Hæstiréttur segir að málatilbúnaður iGwater hefði verið svo verulega vanreifaður að óhjákvæmilegt væri að vísa málinu frá héraðsdómi.

iGwater skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 12. febrúar sl. en kærður er úrskurður Héraðsdóms Suðurlands frá 1. febrúar þar sem málinu var vísað frá dómi.

Í dómi Hæstaréttar kom fram að þótt málshöfðunarfrestur laga um kyrrsetningu, lögbann o.fl. væri skammur og að ekkert væri því til fyrirstöðu að iGwater aflaði frekari sönnunargagna undir rekstri málsins, væri til þess að líta að við þingfestingu málsins hefðu engin gögn verið lögð fram af hálfu félagsins sem styddu kröfur þess, heldur væru kröfuliðir í stefnu eingöngu byggðir á eigin mati félagsins.

Málatilbúnaður félagsins væri því svo verulega vanreifaður að óhjákvæmilegt væri að vísa málinu frá héraðsdómi.

Taldi sig hafa orðið fyrir tjóni

Í dómi Hæstaréttar segir, að með dómi Hæstaréttar 4. júní 2015 í máli nr. 731/2014 hafi meðal annars verið felld úr gildi lögbannsgerð sýslumannsins í Reykjavík 1. nóvember 2013, þar sem lagt var bann við því að iGwater notaði og hagnýtti sér vörumerki Icelandi Water Holdings.

iGwater taldi sig hafa orðið fyrir tjóni vegna lögbannsins og höfðaði því málið til heimtu þess fjártjóns og miska sem félagið taldi lögbannið hafa valdið sér.

Hæstiréttur bendir á, að frestur til að höfða mál til heimtu bóta vegna lögbannsgerðar er þrír mánuðir frá því að þeim, sem bóta krefst, varð kunnugt um höfnun beiðni um gerðina, niðurstöðu staðfestingarmáls eða niðurfellingu gerðar af öðrum sökum.

Engin gögn lögð fram heldur voru kröfuliðir byggðir á mati iGwater

Þá segir Hæstiréttur, að þótt málshöfðunarfresturinn sé skammur og ekkert sé því til fyrirstöðu eftir lögum um meðferð einkamála að sóknaraðili afli frekari sönnunargagna undir rekstri málsins, þar á meðal með því að afla samkvæmt IX. kafla laganna mats sérfróðs manns á því tjóni sem sóknaraðili telur sig hafa orðið fyrir, sé til þess að líta að við þingfestingu þessa máls hafi engin gögn verið lögð fram af hálfu sóknaraðila sem styðja kröfur hans, heldur eru kröfuliðir í stefnu eingöngu byggðir á eigin mati sóknaraðila.

„Málatilbúnaður sóknaraðila er því svo vanreifaður að óhjákvæmilegt er að vísa málinu frá héraðsdómi. Samkvæmt þessu verður hinn kærði úrskurður staðfestur,“ segir í dómi Hæstaréttar. 

Þá skal iGwater greiða Icelandic Water Holdings 400.000 krónur í kærumálskostnað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert