„Bændur eru líka neytendur og skattgreiðendur“

Sagði Sindri að stuðningur yfirvalda til landbúnaðar geri bændum kleyft …
Sagði Sindri að stuðningur yfirvalda til landbúnaðar geri bændum kleyft að selja afurðir á lægra verði til neytenda. Morgunblaðið/Árni Sæberg

Nýir búvörusamningar sem samþykktir voru fyrr í mánuðinum eru sóknarsamningar fyrir landbúnaðinn. Í samningunum felast mun fremur tækifæri en ógnanir og bændur ættu að kynna sér þá vel og hafa trú á sóknarfærum greinarinnar. Þetta er meðal þess sem kom fram í ávarpi Sindra Sigurgeirssonar, formanns Bændasamtaka Íslands, þegar að hann setti Búnaðarþing í Hörpu í dag. 

Í ræðu sinni sagði Sindri að stuðningur yfirvalda til landbúnaðar geri bændum kleyft að selja afurðir á lægra verði til neytenda.

„Hinsvegar sækir oft  að manni sú hugsun þegar hlustað er á marga gagnrýnendur landbúnaðarins að þeir séu ekki að gagnrýna landbúnað í íslenskum samtíma heldur þeirra ímynd á því hvernig landbúnaður var fyrr á árum og varpa þeirri ímynd inn í okkar samtíma. Staðreyndin er nefnilega sú, sem við vitum hér, að gríðarlegar breytingar hafa orðið á íslenskum landbúnaði, innviðum hans, stuðningsumhverfi og viðskiptum við útlönd á liðnum áratugum,“ sagði Sindri og vitnaði í skýrslur OECD þar sem fram kemur að  útgjöld til landbúnaðar á Íslandi hafi lækkað úr 5% af landsframleiðslu á tímabilinu 1986-88 niður í 1,1% á tímabilinu 2012-14.  Þarna er átt bæði við bein fjárframlög úr ríkissjóði og tollvernd eins og OECD metur verðgildi hennar á hverjum tíma. 

Stuðningur til landbúnaðar ekki „einhver bankabónus

„Beinn stuðningur er nú tæpir 13 milljarðar á ári.  Metið verðgildi markaðsverndar eru rúmir 8 milljarðar til viðbótar. Værum við enn í 5% af landsframleiðslu eins og fyrir 25 árum væri samtalan tæpir 100 milljarðar.  Það skal því enginn segja að ekkert hafi breyst því svo sannarlega hafa orðið mjög miklar breytingar,“ sagði Sindri og bætti við að stuðningur til landbúnaðar væri ekki „einhver bankabónus eða dúsa heldur gerir hann bændum kleyft að selja afurðir frá sér á verði sem er undir framleiðslukostnaði og lækka þannig verð til neytenda.“

Sagði Sindri það sjálfsagt og eðlilegt að rætt sé í samfélaginu um stuðninginn, hvernig honum á að vera háttað og hvað sé dregið fram með honum.  „Sú umræða þarf þó að fara fram með sanngjörnum hætti.  Það verður að fara yfir þá sögu sem að baki liggur og þær breytingar sem þegar hafa átt sér stað.  Það er varla til sá staður í veröldinni þar sem að stjórnvöld hlutast ekki á einhvern hátt til um landbúnað, með stuðningi, verndaraðgerðum eða hvoru tveggja.  Svo er einnig raunin hér. Ég tel raunar að landbúnaðurinn njóti mikils og almenns stuðnings meðal landsmanna,“ sagði Sindri og bætti við að það hafi verið mælt í könnunum og komið þar skýrt fram.

Hafa tekið virkan þátt í að bæta kjör landsmanna

Sindri fór stuttlega yfir sögu niðurgreiðslna á landbúnaðarvörum en þær hófust árið 1943. Þær voru liður í því að draga úr verðbólgu en einnig að tryggja bændum viðlíka laun og sambærilegar stéttir þjóðfélagsins höfðu.

„Landbúnaðarvörur höfðu hækkað í verði ári fyrr sem olli mikilli óánægju í samfélaginu og leiddi til verkfalla. Á þessum árum voru laun að miklu leyti verðtryggð og full verðlagsuppbót greidd á laun mánaðarlega samkvæmt vísitölu framfærslukostnaðar. Það var því sameiginlegur hagur stjórnvalda og neytenda að niðurgreiða búvörur til að halda niðri vísitölu og verðbólgu,“ sagði Sindri.

Bændur voru á þessum tíma reiðubúnir til að ganga nokkuð langt til að böndum yrði komið á verðbólguna og samþykkti Búnaðarþing árið 1944 að gefa eftir 9,4% hækkun á landbúnaðarafurðum sem átti að leggjast á lögum samkvæmt. Að sögn Sindra var sú ákvörðun tekin í trausti þess að fleiri tækju þátt í viðlíka aðgerðum, líkt og síðar gerðist í Þjóðarsáttinni árið 1990.

„Sú varð ekki raunin sem olli mikilli gremju meðal bænda. Þá er einnig mikilvægt að halda því til haga að við bændur lögðum okkar af mörkum við að koma koma þjóðinni í gegnum það erfiða ástand sem efnahagshrunið árið 2008 leiddi af sér,“ sagði Sindri og benti á að búvörusamningar voru teknir upp og höfðu í för með sér niðurskurð framlaga, sem hjálpaði ríkissjóði að koma aftur undir sig fótunum.

„Hins vegar hækkaði verð á íslenskum landbúnaðarafurðum mun minna en á öðrum vörum og hélt þannig aftur af verðbólgunni. Bændur hafa þannig, á ólíkum tímum, tekið virkan þátt í að bæta kjör landsmanna til viðbótar við að standa undir matvælaframleiðslu í landinu,“ sagði Sindri.

Efla íslenskan landbúnað og skapa sóknarfæri

Með samningnum munu verkefni sem nýtast landbúnaðinum í heild. Lagði hann áherslu á að þó svo að búgreinasamningum fjölgi ekki eru eftir sem áður ýmis ný verkefni í rammasamningnum sem nýtast eiga fleiri greinum.  „Þar eru tækifæri,“ sagði Sindri.

Sagði hann jafnframt að meginmarkmið samninganna sé að efla íslenskan landbúnað og skapa greininni sem fjölbreyttust sóknarfæri.

„Við viljum auka verðmætasköpun í landbúnaði og nýta sem best tækifærin sem felast í sveitum landsins í þágu bænda, neytenda og samfélagsins alls. Til þess að ná þessum markmiðum eru í samningum fjölbreytt atriði sem ætlað er að ýta undir framþróun og nýsköpun í greininni. Ennfremur er í samningunum lögð áhersla á eflingu lífrænnar framleiðslu og stuðningur við íslenska geitfjárrækt,“ nefndi Sindri.

Við höfum ekkert að fela

Í ræðu sinni sagði Sindri það mjög eðlilegt að almenningur hefði skoðun á málefnum landbúnaðar og framlögum til hans.

„Við tökum þeirri umræðu fagnandi við höfum ekkert að fela og erum alltaf tilbúinn til að koma og upplýsa um okkar málefni.  Gleymum því ekki að bændur eru líka neytendur og skattgreiðendur,“ sagði Sindri.

Sagði hann jafnframt að á hverju ári sé mikil verðmætasköpun í íslenskum landbúnaði en árið 2014 var verðmæti landbúnaðarafurða 51 milljarður króna. 

Um 4.200 lögbýli eru í notkun hér á landi og tæplega 4.000 manns starfandi í landbúnaði samkvæmt tölum Hagstofu Íslands. Alls munu um 11.000 störf tengjast landbúnaði með einum eða öðrum hætti. „Íslenskur landbúnaður er mikilvægur þáttur í virðiskeðjunni og skilar hann og viðskipti með landbúnaðarvörur miklum skatttekjum til ríkisins,“ bætti Sindri við. Sagði hann að íslenskur landbúnaður yrði aldrei stórframleiðsla en að Íslendingar gætu nýtt náttúru Íslands, „okkar stærstu auðlind“ betur en í henni felst hreinleiki og sérstaða.

„Við flytjum inn landbúnaðarvörur fyrir 52 miljarða á ári en flytjum út fyrir 8 milljarða.  Við viljum fyrst og fremst sinna heimamarkaðnum vel og framleiða mat sem næst neytendum, en við viljum líka nýta tækifæri til sóknar erlendis þegar þau bjóðast. Það eru margir neytendur sem kalla eftir vörum sem eru framleiddar við þær aðstæður sem við búum við.  Við spörum gjaldeyri fyrir þjóðarbúið en við viljum gjarnan taka meiri þátt í að afla hans.  Ef tækifærin eru fyrir hendi þau eigum við að grípa þau,“ sagði Sindri.

Sindri við setningu Búnaðarþings í dag.
Sindri við setningu Búnaðarþings í dag. mbl.is/Styrmir Kári
Mynd úr safni.
Mynd úr safni. Ljósmynd/Sigurður Sigmundsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert