Bylurinn alveg að skella á

Einar hvetur fólk til sem er á leiðinni austur fyrir …
Einar hvetur fólk til sem er á leiðinni austur fyrir fjall eða í bæinn af Suðurlandi að drífa sig á áfangastað. mbl.is/Styrmir Kári

„Það er versnandi veður eins og við var að búast hérna suðvestanlands. Bylurinn er ekki alveg skollinn á en nú þarf fólk að fara drífa sig að koma sér fyrir því nú fer hver að vera síðastur að komast yfir fjallvegina. Vindurinn mun ná hámarki snemma í kvöld,“ segir Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur í samtali við mbl.is

Á Hellisheiðinni er skafrenningur, vaxandi úrkoma og versnandi skyggni. Einar segir að frekar blint hafi verið á gatnamótunum Þrengslanna en talsverður munur sé á því hvort ökumenn séu að keyra yfir fjallvegi eða á láglendi en þar er einungis rigning og slydda eins og á Suðurstrandarvegi.

„Það hefur aukið í vindinn undir Hafnarfjalli og á Kjalarnesi. Hviðurnar munu ná um 30 m/s en skilin fara svo yfir seint í kvöld.“ Þá fer veður versnandi á utanverðu Snæfellsnesi og sunnanveðrum Vestfjörðum. Spáð er hríðarveðri austur á fjörðum seinna í kvöld og fram á nótt.

Einar segir að veðrið muni ganga niður hér suðvestanlands og á Suðurnesjum fyrir miðnætti en annars staðar tiltölulega snemma í nótt. „Það er svona að sjá að þetta nái mjög takmarkað norður yfir heiðar. Sums staðar blæs aðeins og skefur staðbundið á fjallvegunum en það er mun minna en hér suðvestanlands.“

Hann hvetur fólk til sem er á leiðinni austur fyrir fjall eða í bæinn af Suðurlandi að drífa sig á áfangastað.

Færð og aðstæður 

Í tilkynningu frá Vegagerð Íslands segir að hálka sé á Sandskeiði og Hellisheiði en hálkublettir í Þrengslum og farið að élja á svæðinu. Snjóþekja á Mosfellsheiði og skafrenningur. Á Suðurlandi er annars hálka og hálkublettir, einkum á útvegum.

Hálkublettir eru á köflum á Vesturlandi og raunar hálka á fáeinum vegum. Vindhviður eru við Hafnarfjall. Fróðárheiði er ófær.

Hálka eða hálkublettir eru að heita má á öllum vegum á Vestfjörðum.

Hálka er einnig víða bæði á Norður- og Austurlandi en sums staðar snjóþekja. 

Frétt mbl.is - Varað við stormi og blindbyl 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert