Stökkpallur fyrir ungt listafólk

Karólína sigraði í Söngkeppni framhaldsskólanna í fyrra.
Karólína sigraði í Söngkeppni framhaldsskólanna í fyrra. mbl.is/Golli

Ákveðið hefur verið að breyta fyrirkomulagi á Söngkeppni framhaldsskólanna. Í ár verða tólf atriði valin til að taka þátt í aðalkeppninni en til að eiga möguleika á því að taka þátt í henni þarf hver skóli að senda inn upptöku af sínu atriði.

Það er síðan dómnefnd sem mun fara yfir atriðin og velja þau tólf sem komast áfram. Hver skóli þarf að borga 40.000 krónur fyrir það að senda inn upptöku ásamt því að fá aðgang að æfingahelgi fyrir keppnina í Reykjavík. Þá þurfa þeir skólar sem valdir verða áfram í lokakeppnina að borga auka 30.000 krónur í þátttökugjald og skuldbinda sig til að selja 20 miða til nemenda sinna á aðalkeppnina.

Nemendafélög sex skóla á landsbyggðinni hafa nú þegar ákveðið að draga sig úr keppni vegna breytts fyrirkomulags. mbl.is ræddi við formenn nemendafélaga nokkurra skóla á höfuðborgarsvæðinu um þessar breytingar á keppninni. 

Frétt mbl.is - Draga sig úr Söngkeppni framhaldsskólanna 

Glowie sigraði árið 2014.
Glowie sigraði árið 2014. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Verzló Vælið stærra en söngkeppnin

„Þessar nýju reglur hafa klárlega áhrif. Þetta hefur verið til umræðu innan skólans en við erum ekki enn búin að taka ákvörðun um það hvort við tökum þátt í keppninni eða ekki,“ segir Styrmir Elí Ingólfsson, forseti nemendafélags Verslunarskóla Íslands.

Hann segir áhuga fyrir keppninni hafa farið dvínandi innan skólans en búið er að halda undankeppni og velja lag sem myndi keppa fyrir hönd skólans. „Við höldum Vælið í nóvember og það er alltaf gríðarlega stór liður af okkar skólaári. Sú keppni er í rauninni stærri en söngkeppnin, haldin í Eldborgarsal Hörpu og á hana mæta um 1500-1800 manns.“

Þá segir Styrmir Elí að nemendum skólans þyki leiðinlegt að borga þátttökugjald inn í keppnina ef ske kynni að atriðið kæmist svo ekki áfram í sjónvarpsútsendingu.

Sverrir Bergmann vann keppnina árið 2000 fyrir hönd Fjölbreytaskóla Norðurlands …
Sverrir Bergmann vann keppnina árið 2000 fyrir hönd Fjölbreytaskóla Norðurlands vestra með laginu Án þín. Ljósmynd/Guðmundur Lúðvíksson

Gríðarlegur stökkpallur fyrir unga listamenn

Hanna María Geirdal, inspector scholae Menntaskólans í Reykjavík, segir að búið sé að taka ákvörðun um að MR verði með í keppninni. „Við héldum skólafund þar sem nemendur skólans ákváðu einróma að þeir vildu taka þátt og vera með í keppninni.“

Hún segir Samtök íslenskra framhaldsskólanema, SÍF, vera hagsmunasamtök og það sé fráleitt að fara pressa á samtökin að niðurgreiða keppnina eða taka með sér tap af henni. „Við erum búin að skrá okkur og hlökkum til að sjá Stefán á sviðinu.“

Hún segir leiðinlegt að ekki öll atriðin komist í sjónvarpsútsendingu en bendir á að innifalið í þátttökugjaldinu sé þó æfingahelgi með Glowie, framkomunámskeið, myndataka og fleira. „Mér finnst það vera hlutverk nemendafélaga að styðja við listafólk í skólanum sínum. Þó svo að við komumst ekki áfram er Stefán að fara að græða mikið á þessu.“

Hanna María segir keppnina gríðarlegan stökkpall fyrir unga listamenn. „Þú sérð bara Karólínu sem vann í fyrra. Hún var að spila á Sónar núna og að gefa út plötu. Ólafur Arnalds var að tweeta um að hún væri það skemmtilegasta sem væri að gerast í popptónlist í dag.“

Ingigerður Bjarndís Ágústsdóttir, formaður Keðjunnar nemendafélags Kvennaskólans í Reykjavík, segir þátttöku Kvennó aldrei hafa verið vafamál. „Auðvitað ætlum við að vera með. SÍF er að standa vel að þessu og er að gera sitt besta við að halda verðinu í lágmarki.“

Þá bendir Ingigerður Bjarndís á fjáröflunarteymi sem framkvæmdastjórn SÍF hefur sett á laggirnar til að koma til móts við kostnað nemendafélaga sem eiga í erfiðleikum með fjármagn. 

Ásdís María Viðarsdóttir sigraði í Söngkeppni framhaldsskólanna 2013.
Ásdís María Viðarsdóttir sigraði í Söngkeppni framhaldsskólanna 2013. mbl.is/Skapti.

Halda eigin keppni fyrir norðan

mbl.is greindi frá því fyrr í vikunni að Menntaskólinn á Akureyri hefði í huga að halda sína eigin keppni. Fjölnir Brynjarsson, inspector scholae Menntaskólans á Akureyri, segir að ekki sé enn búið að taka ákvörðun um hvort að af því verði. „Þetta er allt í vinnslu og ætti að koma í ljós fljótlega. Þetta yrðu þá þeir framhaldsskólar hérna fyrir norðan sem hafa dregið sig úr keppninni.“

Hann segir kostnaðarhliðina ekki vera aðalástæðu þess að MA ákvað að draga sig úr keppni heldur frekar það að aðeins tólf skólar komist í sjónvarpsútsendingu. „Það versta er að þurfa að borga þátttökugjald jafnvel þó atriðið verði ekki einu sinni sýnt í sjónvarpinu.“

Frétt mbl.is - Halda eigin keppni fyrir norðan 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert