Bregðast við fordæmalausri fjölgun flóttamanna

Unnur Brá Konráðsdóttir er fyrstu flutningsmaður frumvarpsins en hún er …
Unnur Brá Konráðsdóttir er fyrstu flutningsmaður frumvarpsins en hún er formaður allsherjarnefndar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Meirihluti  allsherjar- og menntamálanefndar leggur til að fjölgað verði í kærunefnd útlendingamála um fjóra og að formaður og varaformaður nefndarinnar verði skipaðir í fullt starf til fimm ára. Þetta er meðal þess sem kemur fram í frumvarpi til laga um breytingu á lögum um útlendinga.

Eiga von á 600 hælisumsóknum í ár

Meginmarkmið frumvarpsins er að tryggja sanngjarna og skilvirka málsmeðferð við meðferð umsókna um alþjóðlega vernd. Árið 2015 tvöfaldaðist fjöldi umsókna um alþjóðlega vernd hér á landi miðað við árið 2014. Gert er ráð fyrir því að sú þróun haldi áfram á þessu ári og að fjöldi hælisleitenda verði um og yfir 600.

„Ísland hefur því ekki farið varhluta af þeirri fordæmalausu fjölgun flóttamanna og hælisleitenda sem nú á sér stað. Brýnt er að brugðist verði strax við til að styrkja og hraða málsmeðferð umsókna um alþjóðlega vernd. Mikil fjölgun hælisleitenda á síðasta ári hér á landi og í Evrópu gerir það að verkum að fyrirséð er að efla verður málsmeðferð sérstaklega fyrir kærunefnd útlendingamála,“ segir í greinargerð sem fylgir frumvarpinu.
   

Helstur breytingar eru:

Í fyrsta lagi að nefndarmönnum í kærunefnd útlendingamála verði fjölgað úr þremur í sjö, varaformaður nefndarinnar verði skipaður í fullt starf, formanni og varaformanni verði heimilað að úrskurða einir í ákveðnum málum og að nefndin geti sjálf ákveðið hvort umsækjandi komi fyrir nefndina í stað þess að umsækjandi eigi rétt á því ef hann óskar eftir því.
    

Í öðru lagi er lögð til breyting á dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða til að tryggja vandaða málsmeðferð þegar heilbrigðisástæðum er borið við.

Í þriðja lagi er lagt til að réttaráhrifum verði ekki frestað í málum þar sem ríki eru talin örugg upprunaríki og aðstæður þannig að augljóst sé að ákvæði 44. gr. og 1. mgr. 45. gr. laga um útlendinga eigi ekki við.

Í fjórða lagi er lögð til breyting sem miðar að því að gera Útlendingastofnun kleift að sinna upplýsingaskyldu gagnvart hælisleitendum líkt og lögreglu í upphafi málsmeðferðar en einnig er afnumin heimild Útlendingastofnunar til að taka ákvörðun án þess að taka viðtal við hælisleitanda.

„Breytingunum er ætlað að efla starfsemi kærunefndar útlendingamála en þar hefur málsmeðferðartími umsókna ekki haldist í hendur við markmið stjórnvalda um 90 daga að jafnaði. Breytingunum er einnig ætlað að leggja áherslu á og styðja við vandaða málsmeðferð og aukinn málshraða á fyrsta stjórnsýslustigi. Breytt fyrirkomulag á því hvernig ríki teljast til öruggra upprunaríkja og sú takmörkun á frestun réttaráhrifa sem í því felst miðar að því að létta álagi af móttöku og búsetu fyrir hælisleitendur með því að dvalartími hælisleitenda styttist,“ segir í greinargerð með frumvarpinu.

Frumvarpið í heild

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert