„Ekki verulegt tjón af hvalveiðum“

Frá Hvalfirði árið 2013.
Frá Hvalfirði árið 2013. mbl.is/Árni Sæberg

„Til þessa er ekki talið að verulegt tjón á hagsmunum Íslands til skemmri eða lengri tíma hafi orðið." Þetta kemur fram í nýrri skýrslu utanríkisráðherra sem lögð var fram á þingi í dag um áhrif hvalveita á samskipti Íslands og annarra ríkja.

Skýrslan var unnin á grundvelli beiðni Sigríðar Ingibjargar Ingadóttur og fleiri þingmanna. Í skýrslunni kemur fram að þó ekki hafi orðið verulegt tjón á hagsmunum Íslands beri á að líta að í vissum tilvikum er um talsverða viðskiptalega áskorun að ræða fyrir útflytjendur íslenskra sjávarafurða og erlenda samstarfsaðila þeirra. 

Hvað varðar áhrif hvalveiða á ímynd Íslands sem ferðamannalands var því gert skil í skýrslu til Alþingis árið 2006 og kom þar framað ekki yrði séð að áhrif hvalveiða væru neikvæð á landið sem ferðamannaland. Eftir mikla aukningu í straumi ferðamanna til Íslands á undanförnum árum er svo ekkert sem bendir til þess að hvalveiðar Íslendinga trufli þá þróun „og af reynslu undanfarinna ára að dæma mun ferðaþjónustan á Íslandi ekki verða fyrir búsifjum vegna hvalveiða,“ segir í skýrslunni.

Árásir frá Anonymous

Vegna hvalveiðanna hafi hins vegar á síðustu mánuðum komið upp nýjar áskoranir. Þær má rekja til alþjóðlegrar andstöðu við hvalveiðar Íslendinga og hefur hún birst í formi endurtekinna áraása á vefi Stjórnarráðs Íslands af hendi hóps sem nefnist Anonymous. Alls hefur vefur stjórnarráðsins orðið fyrir fjórum slíkum álagsárásum. Gögn stjórnarráðsins hafi þó aldrei verið í hættu vegna árásanna.

Í skýrslunni er varað við því að þótt hvalveiðar Íslendinga hafi haft takmörkuð áhrif á pólitísk samskipti Íslands við önnur ríki þá munu róttæk dýraverndunarsamtök og aðgerðarsinnar halda áfram að leggja stein í götu Íslands, jafnvel með ólöglegum aðgerðum á borð við álagsárásir Anonymous.

Viðbrögð grannríkja vonbrigði

Þá kemur fram að hvalveiðar Íslands eru löglegar að þjóðarrétti og alþjóðleg viðskipti Íslands með hvalaafurðir eru í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar. „Þar fyrir utan hefur verið hafið yfir allan vafa að veiðarnar eru sjálfbærar og vísindagrundvöllur þeirra traustur.“

„Því hafa viðbrögð  margra grannríkja og náinna bandamanna verið mikil vonbrigði, ekki síst þegar t.a.m. bandarísk stjórnvöld hafa, með endurteknum hætti um langt árabil, tilkynnt að þau hyggist grípa til ráðstafana vegna hvalveiða Íslendinga og rökstutt þær með því að hvalveiðar Íslendinga grafi undan verndun hvalastofna.“

„Gætt hefur tilhneigingar meðal stjórnmálamanna bæði vestanhafs og austan til að víkja frá slíkum viðmiðum og jafnvel hvetja til ólöglegra aðgerða gagnvart íslenskum aðilum, á borð við umskipunarbann í tilteknum evrópskum höfnum. Hafa íslensk stjórnvöld ávallt litið á slíkt sem mikið alvörumál. Þrátt fyrir þetta hafa áhrif hvalveiða á samskipti Íslands við stjórnvöld annarra ríkja í meginatriðum verið þau sömu um árabil og eru ekki sýnilegar ástæður til að ætla að breyting verði þar á,“ segir í skýrslunni.

Skýrsluna í heild sinni má lesa hér

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert