Fulltrúi svínabænda gekk á dyr

Ingvi sagði svínabændur vilja fá styrki til að bæta aðbúnað …
Ingvi sagði svínabændur vilja fá styrki til að bæta aðbúnað eða til að úrelda svínabúin. mbl.is/Árni Sæberg

Ingvi Stefánsson, bóndi á Teigi í Eyjafirði og fulltrúi svínabænda á búnaðarþingi 2016 kvað sér hljóðs á þinginu í dag. Lýsti hann yfir gríðarlegri óánægju með hlut svínabænda í búvörusamningunum nýju og gekk því næst á dyr.

„Þannig er framtíðarsýn okkar svínabænda ekki björt, svo ekki sé fastar að orði kveðið. Það voru okkur mikil vonbrigði að ekki skyldi tekið á tollamálum og styrkir auknir vegna herts aðbúnað svína í nýjum búvörusamningi. Það er í raun efni í sér kafla hvernig hægt er að gera svo langan samning þar sem engin skýr stefna liggur fyrir í tollamálum landbúnaðarins,“ sagði Ingvi í ræðu sinni samkvæmt Bændablaðinu.

Tillaga um úrsögn úr Bændasamtökunum verður að öllum líkindum afgreidd á félagsfundi Svínaræktarfélags Íslands á miðvikudag. Sagðist Ingvi vanalega einarður talsmaður sameiginlegs hagsmunavettvangs bænda en að ef slagkraftur heildarsamtakanna væri misnotaður gæti það valdið þeim  og einstökum búgreinum seinbættu tjóni.

„Ástæðan fyrir því að svínabændur íhuga úrsögn úr BÍ er sú að okkur þykir sem samtökin hafi brugðist í hagsmunagæslu sinni fyrir svínabændur.“

Hagsmunum hvíta kjötsins fórnað

Ingvi sagði svínabændur eiga allt undir tollverndinni þar sem þeir hafi ekki notið neinna opinberra styrkja. Sagði hann að samkvæmt skýrstu óháðra aðila um tjón svínabænda vegna minni tollverndar muni afurðaverð lækka um 16% eða 300 milljónir króna árlega. Hann gagnrýndi bæði formann og stjórn bændasamtakanna harðlega fyrir að nýta skýrsluna ekki við gerð nýs búvörusamnings. Fram hafi komið á fundi svínabænda í fjármálaráðuneytinu að fulltrúar þess í samninganefndinni hafði aldrei séð skýrsluna aðeins tveimur dögum áður en skrifað var undir samningana.

 „Hagsmunum hvíta kjötsins var einfaldlega fórnað í tollasamningnum til að koma í gegn þeim búvörusamningi sem nú hefur verið samið um. Málið er ekki flóknara en þetta.“

Ingvi sagði hagsmunum hvíta kjötsins fórnað í tollasamningum.
Ingvi sagði hagsmunum hvíta kjötsins fórnað í tollasamningum. mbl.is/Árni Sæberg

Vilja styrki til bætts aðbúnaðar

Í ræðu sinni var Ingva einnig rætt um kröfur um bættan aðbúnað svína hjá ræktendum. Sagði hann að kosta myndi meira að uppfylla fyrirliggjandi kröfur en ársveltu greinarinnar í heild. Aðeins brot af þeim kostnaði fáist úr búvörusamningi en á meðan þrýsti Matvælastofnun í auknum máli á snöggar breytingar á aðbúnaði.

Ingvi sagði svínabændur setja fram þá kröfu að tollasamningnum verði hafnað eða í það minnsta að upplýst yrði hvaða afleiðingar hann mun hafa á einstaka búgreinar. Einnig vilji svínabændur fá styrki til að bæta aðbúnað eða til að úrelda svínabúin.

 „Ef ekkert kemur til umfram þessar 440 milljónir sem við erum að fá til að bæta aðbúnað á búunum, gengur dæmið einfaldlega ekki upp,“ sagði Ingvi. „Það er helvíti skítt að standa hér á besta aldri og vera að biðla til búnaðarþings að beita sér af öllu afli fyrir því að fá að úrelda búið sitt. Þetta er nú samt veruleikinn sem blasir við mér.“

Umfjöllun Bændablaðsins má lesa hér

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert