Karlar drykkfelldari en konur

52% ungra karla (18-24) drekka sig ölvaða í hverjum mánuði.
52% ungra karla (18-24) drekka sig ölvaða í hverjum mánuði. mbl.is/Júlíus Sigurjónsson

Karlar drekka meira en konur og verða oftar ofurölvi. Þeir borða óhollari mat en konur. Bæði karlar og konur telja sig við góða andlega heilsu og fá nægan svefn. Þetta er meðal þess sem kemur fram í könnun sem Capacent vann fyrir landlæknisembættið.

Að jafnaði drekka karlar oftar áfengi en konur, eða að meðaltali fimm sinnum í mánuði en konur rúmlega þrisvar sinnum. Þegar spurt er um ölvunardrykkju, þ.e. neyslu á 5 áfengum drykkjum eða meira á einum degi, segjast 35% karla drekka sig ölvaða einu sinni í mánuði eða oftar og um 18% kvenna. Þetta er meðal þess sem kemur fram í nýjum talnabrunni landlæknisembættisins sem birtur var í dag.

Karlar drekka sig ölvaða 18 sinnum á ári að meðaltali og konur að meðaltali 8 sinnum. Ölvunardrykkja yngri karla er algengari heldur en þeirra sem eldri eru. Þannig segjast 52% karla í aldurshópnum 18-24 ára drekka sig ölvaða einu sinni í mánuði eða oftar, samanborið við 30% karla í aldurshópnum 45-54 ára. Ölvunardrykkja kvenna einu sinni í mánuði eða oftar mælist 45% í aldurshópnum 18-24 ára, samanborið við 15% í aldurshópnum 45- 54 ára.

Aðeins 10% Íslendinga reykja 

Alltaf fækkar reykingarfólki á Íslandi en nú reykja daglega 10% en var 14% árið 2014. Þessi lækkun er í samræmi við aðrar kannanir á reykingum Íslendinga. Lítill munur er á milli kynja. Daglegar reykingar eru algengastar hjá fólki á aldrinum 45-54 ára, eða 14%, samanborið við 5% í aldurshópnum 18- 24 ára.

„Athyglisvert er að í yngsta aldurshópnum, 18-24 ára, hafa 73% aldrei reykt samanborið við 38% í aldurshópnum 45-54 ára,“ segir í talnabrunninum.

Konur neyta oftar bæði ávaxta og grænmetis en karlar. Tæplega þriðjungur kvenna og fimmtungur karla neyta ávaxta eða berja tvisvar sinnum á dag eða oftar. Heldur færri neyta grænmetis tvisvar sinnum á dag eða oftar.

Karlar þamba meira sykrað gos en konur

Fleiri karlar heldur en konur drekka sykrað gos fjórum sinnum í viku eða oftar, rúmlega fimmtungur karla og rúmlega tíunda hver kona.

Tæplega tveir þriðju kvenna og um helmingur karla taka lýsi eða D-vítamín töflur 4 sinnum í viku eða oftar.

Um helmingur fullorðinna Íslendinga hreyfir sig í samræmi við ráðleggingar, þ.e. helmingur kvenna (50%) og rúmlega helmingur karla (52%). Stærstur hluti þessa hóps hefur viðhaldið slíkum hreyfivenjum í meira en 6 mánuði (40% kvenna og 42% karla). Til viðbótar hreyfir um þriðjungur kvenna sig eitthvað (32%) og um fjórðungur karla (24%). Tæplega fimmtungur kvenna segist ekki hreyfa sig (17%) og tæplega fjórðungur karla (24%) en þar af er aðeins lítill hluti sem hyggst ekki hreyfa sig meira á næstu 6 mánuðum eða um 1% kvenna og 5% karla.

Þriðjungur finnur aldrei fyrir streitu

Tæplega þrír af hverjum fjórum meta andlega heilsu sína góða eða mjög góða. Meirihluti telur sig einnig fá nægan svefn (7–8 klst. á nóttu) en þó eru talsvert færri karlar (62%) en konur (71%) sem uppfylla þau viðmið. Rúmlega þriðjungur karla (34%) og fjórðungur kvenna (24%) sefur að jafnaði aðeins 6 klst. eða minna á nóttu.

Um þriðjungur segist sjaldan eða aldrei finna fyrir mikilli streitu í daglegu lífi en konur (29%) voru talsvert færri í þeim hópi en karlar (38%). Fleiri konur (31%) en karlar (23%) segjast jafnframt oft eða mjög oft finna fyrir mikilli streitu í daglegu lífi. Tveir af hverjum þremur körlum (66%) og þrjár af hverjum fjórum konum (76%) upplifa náin tengsl við aðra og 64% kvenna og 60% karla töldu sig vera hamingjusöm árið 2015, segir í talnabrunni landlæknisembættisins en hér er hægt að lesa ítarlegar um niðurstöðu rannsóknarinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert