Líðan konunnar stöðug

Landspítalinn í Fossvogi.
Landspítalinn í Fossvogi. mbl.is/Ómar

Ítölsk kona sem var flutt alvarlega slösuð með þyrlu Landhelgisgæslunnar á Landspítalann í gær er enn á gjörgæslu, samkvæmt upplýsingum frá Landspítalanum. 

Að sögn upplýsingafulltrúar Landspítalans, Guðnýjar Helgu Herbertsdóttur, er líðan hennar stöðug en áverkar konunnar eru alvarlegir.

Að sögn lögreglunnar á Vesturlandi hafa ekki fengist upplýsingar um tildrög slyssins en það er í rannsókn hjá lögreglu.

Stjórnstöð Landhelgisgæslunnar barst síðdegis gær beiðni um aðstoð þyrlu vegna alvarlegs bílslyss á Stykkishólmsvegi austan við Álftafjörð en þar höfðu útlendingar velt bíl sínum. Þrír voru í bifreiðinni og voru þeir allir fluttir á sjúkrahús með þyrlu LHG en konan er sú eina sem er með alvarlega áverka.

Að sögn Guðnýjar Helgu er líðan manns sem slasaðist alvarlega í vinnuslysi í Gufunesi fyrir helgi óbreytt en honum er haldið sofandi í öndunarvél á gjörgæsludeild spítalans í Fossvogi.

Ítölsk kona liggur á gjörgæsludeild

Líðan óbreytt eftir vinnuslys

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert