„Komu til að herða hnútinn“

mbl.is/Ómar

Fundur í kjaradeilu starfsmanna Rio Tinto Alcan í gær fékk skjótan endi þegar ljós kom í upphafi fundar að fyrirtækið hafði farið fram á lögbann við þeirri aðgerð félagsmanna verkalýðsfélagsins Hlífar að meina yfirmönnum fyrirtækisins að lesta áli í borð í skip til útflutnings.

„Það er alveg ljóst að þeir voru ekki komnir til þess að semja við okkur, heldur til þess að herða hnútinn. Undir þeim kringumstæðum var enginn flötur til þess að ræða,“ segir Gylfi Ingvarsson, talmaður starfsmanna álversins, í samtali við mbl.is.

Verkfall félagsmanna Hlífar hófst á miðnætti aðfaranótt 24. febrúar sl. en það nær til útflutnings á áli frá fyrirtækinu.

Frétt mbl.is: ÍSAL fer fram á lögbann

Gylfi segir að skilningur félagsmanna Hlífar sé sá að þrír yfirmenn megi ganga í störfin sem ekki eru unnin vegna verkfallsins, þ.e. Rannveig Rist, forstjóri Rio Tinto Alcan á Íslandi, framkvæmdastjóri sviðsins sem sér um útskipunina og verkstjórinn.

Skilningur fyrirtækisins sé aftur á móti sá að þrjátíu og fimm manns megi ganga í störfin, þar á meðal stjórn fyrirtækisins og fjórir Frakkar sem Gylfi segir að hafi enga reynslu eða þekkingu á því að skipa út farmi eða gera sjóklárt.

Sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu tekur beiðnina fyrir síðdegis í dag og ætti niðurstaðan að liggja fyrir um kvöldmatarleytið. Enginn fundur hefur verið boðaður í kjaradeilunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert