Stjórnendurnir mega lesta skipin

Álverið í Straumsvík.
Álverið í Straumsvík. mbl.is/Árni Sæberg

„Þeir voru með um 30 manna lista yfir starfsfólk sem þeir vildu að fengju heimild til þess að vinna við að lestunina,“ segir Kolbeinn Gunnarsson, formaður verkalýðsfélagsins Hlífar í Hafnarfirði, í samtali við mbl.is, en Sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu hefur samþykkt lögbann á hluta af aðgerðum verkalýðsfélagsins við álverið í Straumsvík. Samkvæmt Kolbeini er æðstu yfirmönnum Rio Tinto Alcan á Íslandi, stjórn fyrirtækisins og skrifstofufólki er heimilt að lesta ál um borð í flutningaskip en ekki öðrum. Það eru um 15 manns af 34 manna lista.

Hafnarverkamenn sem starfa við höfnina við álverið í Straumsvík fóru í verkfall í síðustu viku í tengslum við kjaraviðræður starfamanna álversins við eiganda þess Rio Tinto Alcan á Íslandi. Hópur starfsmanna álversins, þar á meðal bæði stjórnendur fyrirtækisins og verkstjórnar, gengu í störf hafnarverkamannanna en verkfallsverðir verkalýðsfélagsins Hlífar komu að lokum í veg fyrir það. Kolbeinn segir félagið ekki hafa verið að koma í veg fyrir að til að mynda forstjóri Rio Tinto Alcan á Íslandi gengi í störfin eða aðrir í æðstu stjórn fyrirtækisins enda þeim það heimilt.

Kolbeinn segir að samkvæmt sýslumanni megi forstjóri Rio Tinto Alcan á Íslandi ganga í störfin og framkvæmdastjórar fyrirtækisins, starfsmannastjóri þess og stjórnin. „Það má segja að þetta sé bara skrifstofufólkið sem megi ganga í störfin auk stjórnarinnar,“ segir hann. Spurður um framhaldið segir hann: „Ég reikna bara með að við mætum á staðinn í fyrramálið í verkfallsvörslu og skoðum hverjir mæta til vinnu og óskum eftir að fá að sjá gögn þeirra og hvort þeir hafi heimild til að vinna þarna.“ Þar á meðal hvort fólkið hafi réttindi til að starfa á vinnuvélum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert