Úðuðu „spillingarspreyi“ fyrir utan Borgun

Leifur notar
Leifur notar "Spillingarspreyið" á bifreið Borgunar. mbl.is/Styrmir Kári

Skiltakarlarnir svokölluðu stóðu fyrir mótmælum við höfuðstöðvar Borgunar við Ármúla í hádeginu í dag. Skilti Skiltakarlanna hafa vakið athygli í Reykjavík síðustu misseri en þar er margumræddri sölu Landsbankans á hlutafé bankans í Borgun mótmælt.

Þegar blaðamann mbl.is bar að garði við Ármúla rétt fyrir klukkan 12 voru Skiltakarlarnir, Ólafur Sigurðsson og Leifur Benediktsson að koma fyrir skiltum á ljósastaurum á móti skrifstofum Borgunar. Stóð á skiltunum BORGUNARMENN SKILIÐ ÞÝFINU.

Skilti höfðu verið hengd upp fyrir utan höfðustöðvar Borgunar í …
Skilti höfðu verið hengd upp fyrir utan höfðustöðvar Borgunar í Ármúla. mbl.is/Styrmir Kári

Í lok janúar stóðu Skiltakarlarnir fyrir mótmælum í höfuðstöðvum Landsbankans við Austurstræti þar sem um hundrað manns mættu. Í samtali við mbl.is fyrir utan Borgun í dag sagði Leifur þau mótmæli hafa heppnast vel enda skapaðist mikil umræða um málið. „Ég vona að þau hafi vakið fólk til lífsins,“ sagði Leifur. „Það er hægt að gera eitthvað í þessu. Það er svosem ágætt að mótmæla á Facebook en það skilar engu. Við viljum frekar að fólk mæti.“ Bætti hann þó við að þó svo að ekki væri vel mætt í dag væri mikil samstaða um málið í samfélaginu.

Hann sagðist vera ánægður með mótmælin í Landsbankanum. „Við vorum ekki að hvetja til neinna óláta og þetta fór bara vel fram.“

Ólafur og Leifur.
Ólafur og Leifur. mbl.is/Styrmir Kári

Fyrir utan Borgun í dag höfðu þeir Ólafur og Leifur meðferðist svokallað „Spillingarsprey“ sem þeir úðuðu á bifreiðar Borgunar og glugga. „Burt með þessa spillingu,“ sagði Leifur á meðan hann úðaði á bifreið merkta Borgun fyrir utan skrifstofurnar.

Lögðu Leifur og Ólafur áherslu á að um táknræn og friðsæl mótmæli væri að ræða. „Við meinum ekkert illt,“ sagði Ólafur þegar að inn á skrifstofu Borgunar var komið. „Við erum bara að mótmæla þessu rugli. Þessir peningar hefðu átt að fara í samfélagssjóðinn, ekki einhverja peningamafíu,“ sagði Leifur og bætti við að peningarnir sem Borgun græddi á sölunni hafi átt að renna til heilbrigðis- og skólakerfisins.

Leifur og Ólafur sögðust ekki búast við því að fá að ræða við einhvern af stjórnendum Borgunar í dag og kom það því þeim ánægjulega á óvart þegar að Haukur Oddsson, forstjóri Borgunar, kom og hitti þá í móttökunni.

Haukur Oddsson, forstjóri Borgunar ræðir við Ólaf og Leif.
Haukur Oddsson, forstjóri Borgunar ræðir við Ólaf og Leif. mbl.is/Styrmir Kári

Haukur ræddi við Ólaf og Leif í tæplega tíu mínútur og lagði áherslu á að fyrirtækið taki því mjög alvarlega þegar það er sakað um að hafa brotið af sér. Benti hann á að fyrirtækið hafi svarað flestum ásökunum í fjölmiðlum.

Útskýrði hann að Borgun hefði ekkert með það að gera hvernig Landsbankinn stæði að sölu á sínum hlutabréfum. Lagði hann áherslu á að engum gögnum hafi verið eytt um söluna þó að þau hafi verið tekin úr svokölluðu gagnaherbergi.

„Landsbankinn fékk öll gögn og gat kynnt sér þetta,“ sagði Haukur. Var hann spurður hvort að gögn um tilvonandi kaup Visa Inc. á Visa Europe hefðu fylgt með sagði Haukur engan hafa vitað um hana. „Árið 2014 var enginn í veröldinni sem vissi að það yrði selt. Við vissum af þessu 2. nóvember 2015, hvernig áttum við að vita það fyrr?“ spurði Haukur. Sagði Leifur að þeir hafi vitað betur.

„Þessi fyrirtæki eru að mergsjúga okkur,“ sagði Leifur og bætti við að m.a. þess vegna væri ungt fólk að flýja til útlanda. „Það koma tölur um velmegun sem getur vel verið hjá afmörkuðum hópum en ekki hjá almenningi. Það gengur ekki,“ bætti Ólafur við.

Að lokum sagðist Haukur eiga erfitt með það að sitja undir ásökunum um að hann væri að ljúga. „Við vissum ekki um þetta,“ sagði hann.

„Beint með þetta til ríkissaksóknara,“ sagði Leifur. „Það þarf að rannsaka þetta.“

mbl.is/Styrmir Kári
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert