Kastaði fjórum sinnum en hitti aldrei

Ákærði er sagður hafa kastað grjóti fjórum sinnum í átt …
Ákærði er sagður hafa kastað grjóti fjórum sinnum í átt að brotaþola sem þó komst undan í öll skiptin. mbl.is/Árni Sæberg

Karlmaður á sextugsaldri hefur verið ákærður fyrir tilraun til sérstaklega hættulegrar líkamsárásar og til vara fyrir hættubrot með því að hafa kastað grjóti fjórum sinnum í átt að öðrum manni á fimmtugsaldri. Náði sá sem varð fyrir grjótkastinu að víkja sér undan og þannig komast hjá því að verða fyrir líkamstjóni.

Atvikið átti sér stað á vormánuðum árið 2014 í Hvalfjarðasveit, en það er embætti héraðssaksóknara sem ákærir í málinu. Gerir brotaþolinn einnig einkakröfu þar sem farið er fram á eina milljón í miskabætur.

Í ákæru málsins kemur fram að með háttseminni hafi ákærði á ófyrirleitan hátt stofnað lífi og heilsu brotaþola í augljósan háska. Er þess krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert