Skipin hugsanlega stöðvuð erlendis

mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Verkalýðsfélög hér á landi hafa verið í sambandi við alþjóðasambönd verkalýðshreyfinga vegna kjaradeilunnar í álverinu í Straumsvík með það fyrir augum að uppskipun á áli frá álverinu úr flutningaskipum verði mögulega stöðvuð í erlendum höfnum.

Þetta staðfestir Guðmundur Ragnarsson, formaður Félags vélstjóra og málmtæknimanna, í samtali við mbl.is. Hann segir að ekki hafi verið ákveðið að grípa til slíkra aðgerða en til þess gæti komið ef ástæða þykir til. Fimmtán stjórnendur Rio Tinto Alcan á Íslandi unnu í dag við að ferma flutningaskip við álverið en sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu úrskurðaði í gær að þeim væri það heimilt. Verkfallsverðir hafa fylgst með störfum þeirra í dag.

„Við munum náttúrulega leita allra leiða sem okkur eru færar og virka. Við erum ekkert sáttir við þennan úrskurð sýslumanns. En við förum auðvitað að íslenskum lögum,“ segir Guðmundur. Það sé þó ekki ljóst á þessum tímapunkti hvort gripið verði til aðgerða í erlendum höfnum en ákveðinn undirbúningur hafi átt sér stað í þeim efnum komi til þess.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert