Þurfa ekki að gera boð á undan sér

Litið er alvarlegum augum ef eftirlitsmönnum er ekki hleypt inn.
Litið er alvarlegum augum ef eftirlitsmönnum er ekki hleypt inn. Sigurður Bogi

„Við lítum þetta mjög alvarlegum augum, að fá svona viðbrögð, að eftirlitsmönnum sem mæta á svæðið sé ekki heimilað að fara inn,“ segir Einar Örn Thorlacius, lögfræðingur Matvælastofnunar, í samtali við mbl.is. 

Sá sem ekki vildi hleypa eftirlitsfólkinu sagði að gera þyrfti boð á undan sér ef eftirlit ætti að fara fram.

Stofnunin stöðvaði í gær markaðsetningu afurða frá Sláturhúsinu á Seglbúðum ehf. í Skaftárhreppi og verður dreifing afurða úr sláturhúsinu ekki leyfð fyrr en eftirlit hefur farið fram.

Eftirlitsmaður Matvælastofnunar kom á staðinn ásamt héraðsdýralækni í lok janúar. Í fyrri heimsóknum höfðu verið gerðar kröfur til úrbóta, meðal annars vegna merkinga á vörum og stóð til að kanna hvort brugðist hefði verið við þeim.

Frétt mbl.is: Stöðva markaðssetningu sláturhúss

Fólkinu var ekki heimilaður aðgangur í sláturhúsið og sendi lögfræðingur stofnunarinnar því bréf í kjölfarið þar sem fram kom að til stæði að svipta sláturhúsið leyfi til að markaðssetja vörur. Í andmælabréfi sem barst frá sláturhúsinu sagði að um misskilning hefði verið að ræða og það hefði alltaf staðið opið eftirlitsmönnum. 

Höfðu gert kröfur um umbætur í sláturhúsinu 

Ekki liggur fyrir hvenær hægt verður að greiða úr málinu. Mikið er að gera hjá eftirlitsmönnum og héraðsdýralækni en þó er stefnt að því að fara við fyrsta tækifæri

„Málið er að við getum ekki farið strax, þetta er þó nokkuð mikill akstur að fara. Við lítum þetta mjög alvarlegum augum, að fá svona viðbrögð, að eftirlitsmönnum sem mæta á svæðið sé ekki heimilað að fara inn,“ segir Einar Örn.

Sláturhúsið mun því ekki geta sett vöru á markað þangað til búið er að taka það út af eftirlitsmanni og dýralækni. Einar Örn segir að ekki sé álitin hætta á ferðum þó vara frá sláturhúsinu sé í umferð. Gerðar höfðu verið kröfur um úrbætur í fyrri eftirlitsferðum sem sneru meðal annars að merkingum á kælum en einnig átti að kanna hitastig á kælum.

Einar Örn segir að sá sem vildi ekki hleypa eftirlitsfólkinu inn hefði sagt að gera þyrfti boð á undan sér ef eftirlit ætti að fara fram.

„Það er rangt, samkvæmt reglu á matvælaeftirlit að koma óvænt,“ segir Einar Örn. Í andmælabréfi sláturhússins kom fram að sláturhúsið hefði alltaf verið opið eftirlitsmönnum en ekki hefði verið nein starfsemi í húsinu þegar þeir komu í lok janúar. Hann segir að eftirlitsmennirnir hafi samt sem áður átt erindi.

„Þetta er líka viðvörun til annarra, það er litið alvarlegum augum hjá okkur ef eftirlitsmönnum er ekki hleypt inn,“ segir Einar Örn að lokum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert