5% barna fái fría vist á leikskóla

Frá Hafnarfirði.
Frá Hafnarfirði. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Foreldrar hafnfirskra barna sem dvelja í sex klukkustundir eða skemur dag hvern á leikskóla munu fá fulla niðurfellingu leikskólagjalda. Leikskólagjöld vegna barna sem dvelja lengur en sex klukkustundir á dag verða aftur á móti óbreytt. Innleiðing þessara breytinga var samþykkt af meirihluta Bjartrar framtíðar og Sjálfstæðisflokks, samkvæmt vefmiðlinum Bærinn okkar. 

Samkvæmt Bærinn Okkar ná þessar breytingar aðeins til tveggja leikskóla í Hafnarfirði af sautján til að byrja með og ekki liggur fyrir hvaða leikskólar það verða.

Segir miðillinn tillögu þessa efnis samþykkt í bæjarráði þann 13. júlí á síðasta ári. Hinsvegar hafi ekki verið samþykkt að hrinda breytingunum í framkvæmd fyrr en í síðustu viku. Enginn rökstuðningur fylgi tillögunni né greining á vændum áhfrifum eða áætlun um kostnað bæjarins vegna breytinganna. 

Í frétt Bæjarins Okkar kemur fram að fyrir umræður í bæjarstjórn í gær höfðu tilllöguflytjendur ekki kannað hversu hátt hlutfall barna dveldi sex klukkustundir eða skemur á leikskólum. Segir miðillinn að samkvæmt tölum Hagstofunnar dvelji einungis fimm prósent barna á Íslandi sex tíma eða skemur og sé sú tala yfirfærð á Hafnarfjörð megi gera ráð fyrir að breytingin nái til um 80 barna. Eins og áður sagði munu breytingarnar aðeins ná til tveggja leikskóla til að byrja með og þar með til u.þ.b. 10 leikskólabarna sé mið tekið af tölum Hagstofunnar.

Frétt Bæjarins okkar

Uppfært 19:25

Samkvæmt Rósu Guðbjartsdóttur, bæjarfulltrúa í Hafnarfirði og formanni bæjarráðs, fer vefmiðill Samfylkingarinnar, Bærinn okkar, með rangt mál. Ekkert hafi verið samþykkt í þessum efnum annað en að skipa starfshóp sem skoði málið, þ.e. hvort grundvöllur sé fyrir því að ráðast í tilraunaverkefni sem miði að því byggja gjaldskrár leikskóla upp á annan hátt en nú er.

Niðurstaða starfshópsins muni að sjálfsögðu ráða úrslitum um hvort farið verði af stað í slíkt eða ekki. Það sé hins vegar merkilegt að félagshyggjuflokkarnir svokölluðu, Samfylking og VG, setji sig fyrirfram svo afgerandi á móti þessu.

Uppfært 21:49

Mbl.is barst ábending um að tillaga hafi vissulega verið samþykkt um málið. Það var gert þann 13. ágúst 2015 með þremur atkvæðum af bæjarráði sem starfaði þá í umboði bæjarstjórnar vegna sumarleyfa. Fulltrúar Samfylkingar og VG sátu hjá. 

Tillagan hljómar svo: „Hafinn verði undirbúningur í 1-2 leikskólum á tilraunaverkefni um sex tíma gjaldfrjálsan leikskóla“. Í greinargerð segir að reynsla viðkomandi leikskóla verði höfð til hliðsjónar þegar slíkt skipulag er ákveðið til framtíðar. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert