Bannað að selja áfengi í Fríhöfninni?

mbl.is/Heiddi

Kæra hefur verið lögð fram á hendur Fríhöfninni á Keflavíkurflugvelli vegna brots á áfengislögum. Kærendur, HBO vín ehf., vilja meina að engin lagaheimild sé fyrir hendi til þess að selja áfengi í Fríhöfninni. Jónas Fr. Jónsson héraðsdómslögmaður heldur utan um málið fyrir kærendur.

Fram kemur í kærunni, sem lögð var fram í ágúst á síðasta ári og mbl.is hefur undir höndum, að hvergi í áfengislögum sé að finna heimild fyrir Fríhöfnina til að selja áfengi. Slík heimild hafi verið fyrir hendi í eldri áfengislögum og tollalögum en hafi síðan verið felld brott við setningu núgildandi áfengislaga árið 1998. Engum öðrum sé fyrir vikið heimil smásala á áfengi en ÁTVR samkvæmt núgildandi lögum.

Bent er á að í eldri tollalögum hafi verið sérstök heimild fyrir fjármálaráðherra til þess að heimila sölu á áfengi í verslunum með tollfrjálsar vörur. Sú heimild hafi hins vegar fallið brott með nýjum tollalögum árið 2005. Þannig sé ljóst að löggjafinn hafi með beinum hætti afnumið þær sérstöku heimildir sem til staðar hafi verið í eldri lögum til áfengissölu í tollfrjálsum verslunum.

„Með vísan til alls framangreinds er ljóst að í starfsemi Fríhafnarinnar á sér stað smásala á áfengi í andstöðu við lögbundið einkaleyfi ÁTVR til smásölu áfengis,“ segir ennfremur í kærunni. Ríkisútvarpið sagði fyrst frá málinu í kvöldfréttum sínum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert