Dæmdur til að greiða 56 milljónir

mbl.is/Hjörtur

Karlmaður var í Hæstarétti í dag dæmdur í níu mánaða fangelsi fyrir skattalagabrot. Sex mánuðir eru skilorðsbundnir og falla niður haldi maðurinn almennt skilorð í þrjú ár. Ennfremur var honum gert að greiða 56,5 milljón króna í sekt í ríkissjóð. Geri hann það ekki skal hann sæta fangelsi í eitt ár. Þá var manninum gert að greiða málskostnað upp á rúma hálfa milljón króna.

Maðurinn var sakfelldur fyrir að hafa í sjálfstæðri atvinnustarfsemi sinni ekki staðið skil á virðisaukaskattskýrslum og virðisaukaskatti sem og fyrir bókhaldsbrot. Voru brotin talin meiri háttar. Manninum var gerður hegningarauki vegna hluta brotanna en tekið var tillit til brotaferils hans. Maðurinn hefur þrívegis áður hlotið dóma fyrir brot gegn almennum hegningarlögum og ýmsum ákvæðum skattalaga.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert