Fá ekki að koma til Íslands í gegnum Kanada

Frá Havana á Kúbu
Frá Havana á Kúbu Af vef Wikipedia

Kúbönsk kona, sem er með varanlegt dvalarleyfi á Íslandi, og sonur hennar og íslensks eiginmanns hennar, fær ekki að koma til Íslands þar sem kanadísk yfirvöld hafa hafnað beiðni hennar um að millilenda í Toronto. Drengurinn, sem er íslenskur ríkisborgari, fær því ekki að koma heim til Íslands í gegnum Kanada líkt og til stóð næsta mánudag.

Konan hefur búið hér á landi í tæp fimm ár en hún og eiginmaður hennar kynntust fyrir níu árum síðan. Þau eignuðust son fyrir tveimur árum hér á landi og er hann eðli málsins samkvæmt íslenskur ríkisborgari. Hún er aftur á móti kúbanskur ríkisborgari með varanlegt dvalarleyfi á Íslandi.

Í desember í fyrra fór fjölskyldan til Kúbu til þess að heimsækja fjölskyldu konunnar og urðu mæðginin eftir en eiginmaðurinn fór heim til Íslands í janúar. Mæðginin eiga pantað flug frá Kúbu til Íslands á mánudag en eiga að millilenda í Toronto í Kanada í tvo tíma á leiðinni heim.

Þar sem Kúbanar þurfa vegabréfsáritun til Kanada (transit visa), ef þeir ætla að millilenda þar, sótti eiginmaður hennar um áritunina fyrir hönd eiginkonu sinnar eftir að hún hafði fengið þær upplýsingar í sendiráði Kanada í Havana að umsóknin yrði að vera rafræn.

Netsamband er mjög slæmt á Kúbu og því ákváðu þau hjónin að það væri þægilegra að hann sæi um að senda umsóknina fyrir hennar hönd. En þá  kom babb í bátinn, sendiráð Kanada í London hafnaði umsókninni.

Eiginmaðurinn hafði þá samband við sendiráð Kanada á Íslandi sem taldi enga ástæðu til að hafna konunni um að fara til Íslands í gegnum Kanada og ráðlögðu fjölskyldunni að leita til sendiráðs Kanada á Kúbu enda hefði sendiráðið í London ekkert með málið að gera.

Í kjölfarið  fór konan í sendiráð Kanada í Havana og fyllti út umsókn skriflega um að mega millilenda í tvo tíma í Kanada á leið sinni heim. Með fylgdu gögn sem eiginmaður hennar hafði sent konu sinni frá fyrri umsókn. En í gær fékk fjölskyldan þær fréttir að umsókninni að hefði hafnað að nýju. Að sögn eiginmannsins fékk hún þær skýringar að fyrri ferðasaga (travel history) og hver stæði straum af kostnaði við ferð hennar væru ástæða synjunar.

Aldrei komið til Kanada

Aðspurður segir eiginmaðurinn að þetta þýði að sonur þeirra, sem er tveggja ára gamall íslenskur ríkisborgari, fái ekki að snúa til heimalandsins með móður sinni en eðli málsins samkvæmt sendir enginn tveggja ára gamalt barn eitt í ferðalag sem þetta. Kona hans hefur aldrei komið til Kanada þannig að hann getur ekki ímyndað sér hvað valdi þessum skýringum enda löngu búið að greiða fyrir farmiðann og fjölskyldan búsett hér á landi. 

Hann segir að þau hafi aldrei lent í neinu sambærilegu áður enda hafi hún hingað til ferðast milli landanna tveggja með millilendingu í Evrópu, það er öðru Schengenríki, vandkvæðalaust. Ef þau hefðu vitað af þeim vandræðum sem gætu hlotist af tveggja tíma millilendingu í Toronto hefðu þau aldrei keypt flugmiða fyrir þau mæðgin þessa leið. 

Þau hafa nú leitað til utanríkisráðuneytisins og bíða svara um hvort hægt er að aðstoða fjölskylduna við að sameinast á Íslandi. Tíminn er að renna út enda eiga þau pantað flug á mánudaginn, 7. mars.

 Athugasemd frá blaðamanni: Þar sem nokkrir lesendur hafa kvartað undan því að það hafi ekki komið nægjanlega skýrt fram í fyrirsögninni að það væru yfirvöld í Kanada sem kæmu í veg fyrir ferðalag þeirra til Íslands þá hefur fyrirsögnin verið lengd og í gegnum Kanada bætt við. Beðist er velvirðingar á því ef það var ekki nægjanlega skýrt í fyrri útgáfu fyrirsagnarinnar.

Fjölskyldan fær ekki að sameinast á Íslandi þar sem þau …
Fjölskyldan fær ekki að sameinast á Íslandi þar sem þau gerðu þau mistök að bóka flug með millilendingu í Kanada
Pearson alþjóðaflugvöllurinn í Toronto.
Pearson alþjóðaflugvöllurinn í Toronto. mynd/Wikipedia
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert