Hagir barns breyta ekki konu í móður

Staðgöngumæðrun er bönnuð með lögum á Íslandi en ekki í …
Staðgöngumæðrun er bönnuð með lögum á Íslandi en ekki í Kaliforníu. Myndin er úr safni AFP

Íslenska ríkið og Þjóðskrá voru í Héraðsdómi Reykjavíkur í gær sýknuð af kröfu tveggja kvenna um að drengur sem staðgöngumóðir fæddi fyrir þær yrði skráður í þjóðskrá og að hann yrði skráður sem sonur þeirra. 

Drengurinn er fæddur árið 2013 í Bandaríkjunum en konurnar, sem þá voru í hjúskap, leituðu til stofnunar í Kaliforníu, sem ber heitið Advocates for Surrogacy, og hefur milligöngu um að finna staðgöngumóður sem getur gengið með barn sem fyrirhugaðir foreldrar skuldbinda sig til að ganga í foreldrastað.

Egg og sæði frá nafnlausum gjöfum

Þær undirrituðu ódagsetta staðgöngufæðingaráætlun ásamt staðgöngumóðurum að  staðgöngumóðirin gangi með barn þeirra og er þess getið að þungun hafi orðið með tæknifrjóvgun og færslu á fósturvísi þar sem notuð hafi verið egg og sæði frá nafnlausum gjöfum. Konurnar greiddu síðan Advocates for Surrogacy ótilgreinda fjárhæð til að mæta öllum kostnaði sem hlytist af þessu ferli og að hluti þeirrar greiðslu hefði gengið til staðgöngumóðurinnar.

Þær dvöldu síðan í um þrjár vikur í Bandaríkjunum eftir fæðingu drengsins meðan beðið var eftir því að hann  fengi útgefið bandarískt vegabréf. Eftir að þær fengu vegabréfið í hendur héldu þau til Íslands.

Þjóðskrá hafnaði síðan beiðni þeirra um skráningu drengsins í þjóskrá. Í ákvörðuninni er vísað til þess að hann hafi fæðst í Bandaríkjunum af staðgöngumóður. Þar af leiðandi geti ákvæði íslenskra barnalaga um feðrun og móðerni ekki átt við og því hafi ekki stofnast sjálfkrafa réttur til handa barninu til íslensks ríkisfangs samkvæmt lögum um íslenskan ríkisborgararétt. Þá væri Þjóðskrá Íslands ekki bært stjórnvald til að ákveða um rétt barnsins til dvalar hér á landi og þar með skráningu í þjóðskrá. Yrði að líta svo á að drengurinn, væri bandarískur þegn og að þar með ættu ákvæði laga um útlendinga við um skráningu hans hér á landi.

Hvorugt foreldrið íslenskur ríkisborgari

Konurnar kærðu ákvörðun Þjóðskrár til innanríkisráðuneytisins en ráðuneytið hafnaði beiðni þeirra enda sé óumdeilt að hafi fæðst í Bandaríkjunum af þarlendri konu og því ljóst að samkvæmt íslenskum rétti telst sú kona móðir barnsins. Engin gögn hafa verið lögð fram sem sýna að kynfaðir barnsins sé íslenskur ríkisborgari.

Með þessum röksemdum var staðfest niðurstaða stefnda, Þjóðskrár Íslands, að ekki hafi verið fyrir hendi lagaskilyrði til þess að skrá barnið með íslenskt ríkisfang. 

Þær sóttu í kjölfarið um að fá að ættleiða drenginn en ættleiðingarferlinu hafi ekki verið lokið þegar þær hafi skilið en við það hafi umsóknin fallið niður.

Hagir barns breyta ekki konu í móður
Hagir barns breyta ekki konu í móður AFP

Staðgöngumæðrun lögbrot á Íslandi

Í dómi héraðsdóms er vísað til þess að staðgöngumæðrun er bönnuð með lögum á Íslandi og synjun Þjóðskrár og ráðuneytisins reist á því að hvorug þeirra gæti talist foreldrar drengsins samkvæmt íslenskum lögum enda barnið getið með tæknifrjóvgun og færslu á fósturvísi þar sem notuð hafi verið egg og sæði frá nafnlausum gjöfum.

Ekki er í íslenskum lögum vikið með beinum hætti að því hvaða réttaráhrif erlendar stjórnvalds- eða dómsúrlausnir um foreldratengsl á grunni staðgöngumæðrunar eigi að hafa á Íslandi. Hins vegar gildir hér á landi afdráttarlaust bann við staðgöngumæðrun. Í 4. mgr. 5. gr. laga nr. 55/1996 um tæknifrjóvgun og notkun kynfrumna og fósturvísa manna til stofnfrumurannsókna segir orðrétt: „Staðgöngumæðrun er óheimil.“

Staðgöngumæðrun er skilgreind í 1. gr. sem tæknifrjóvgun sem er framkvæmd á konu sem hyggst ganga með barn fyrir aðra konu og hefur fallist á það fyrir meðgönguna að láta barnið af hendi strax eftir fæðingu. Í athugasemdum við frumvarpið sem varð að lögum nr. 55/1996 er tekið fram að margvísleg siðfræðileg álitamál komi upp við staðgöngumæðrun. Aðalálitaefnið lúti þó að móðerni barnsins og er tekið fram að rétt þyki að leggja til að staðgöngumæðrun verði óheimil.

Refsing er lögð við broti á banni við staðgöngumæðrun og að brot gegn lögunum varði sektum eða fangelsi allt að þremur mánuðum. Brot á þessu banni varðar þó einungis refsingu hafi það verið framið á yfirráðasvæði íslenska ríkisins. Ekkert bendir til þess að svo hátti til í þessu máli.

Foreldratengslum sem er komið á erlendis með háttsemi sem er bönnuð hér á landi að viðlagðri refsingu gengur aftur á móti í berhögg við grunnreglur íslensks réttar. Með því að viðurkenna slík foreldratengsl, þó að til þeirra sé stofnað á löglegan hátt erlendis, er opnað á möguleika þeirra sem hér eru búsettir til að sniðganga framangreint bann. Þessi aðstaða gefur íslenskum stjórnvöldum lögmætt tilefni til að hafna gildi erlendrar stjórnvalds- eða dómsúrlausnar, sem ella ákvarðar persónulega stöðu viðkomandi.

Hafa annast drenginn allt frá fæðingu

Fyrir liggur að staðgöngumóðir drengsins, hefur afsalað sér öllum foreldraskyldum gagnvart honum og þangað á hann augljóslega ekki afturkvæmt. Með dómsúrlausn í Kaliforníu hefur konunum tveimur verið falið að gegna þessum skyldum gagnvart barninu. Það gerðu þær strax frá fæðingu og hafa þær annast hann og í raun gegnt öllum umönnunar- og uppeldisskyldum gagnvart honum allt til þessa dags. Er á það fallist að með þeim hafi myndast fjölskyldutengsl sem njóti verndar 1. mgr. 71. gr. stjórnarskrárinnar og 1. mgr. 8. gr. mannréttindasáttmálans.

Útlokar að kona sem elur barn geti afsalað sér stöðu sem móðir

Dómarinn bendir á í dómi sínum að bann við staðgöngumæðrun útiloki að kona sem elur barn geti afsalað sér náttúrulegri stöðu sinni sem móður þess. Þá kemur bannið í veg fyrir að kona sé undir þrýstingi að veita afnot af líkama sínum með því að ganga með barn sem hún þarf síðan að slíta öll tengsl við.

Að óbreyttum lögum hljóta jafnframt að koma upp vandkvæði fyrir barn, sem verður til á þann hátt sem hér um ræðir, við að leita upplýsinga um uppruna sinn. Ákvörðun um að viðurkenna ekki erlenda dómsúrlausn þar sem foreldratengslum er komið á með staðgöngumæðrun hefur sama tilgang og bann íslenskra laga við staðgöngumæðrun. Í þessu ljósi telur dómurinn að sú niðurstaða stefndu að hafna því að slík dómsúrlausn hefði gildi hér á landi hafi átt stoð í reglum er miða að brýnu markmiði vegna réttinda annarra.

Hefðu fengið að ættleiða ef þær hefðu ekki skilið

Samkvæmt dómi héraðsdóms hefur ákvörðun Þjóðskrár valdið drengnum erfiðleikum við að fá persónulega stöðu sína viðurkennda en með fóstursamningi var tryggt að hann nyti umönnunar kvennanna, þannig að eiginleg foreldratengsl  voru ekki slitin. Hann mun síðan hafa fengið dvalarleyfi, verið skráður í þjóðskrá og fengið kennitölu og fær íslenskan ríkisborgararétt með lögum er tóku gildi 31. desember 2015.

Með því var rutt úr vegi ýmsum þeim hindrunum sem fósturforeldrar (konurnar tvær) vísa til að hafi torveldað barninu að fá stöðu sína í íslensku samfélagi viðurkennda. Eins hafi þær sótt um að fá að ættleiða fósturson sinn en um ættleiðingu barns sem hefur verið í fóstri hjá umsækjendum gilda sérstakar reglur um ættleiðingar. Að því gættu að hagir barnsins mæltu eindregið með því má ætla að ættleiðingarleyfi hefði fengist ef þær hefðu ekki slitið samvistum.

„Í ljósi alls þess sem að framan er rakið telur dómurinn að sú íhlutun í friðhelgi einka- og fjölskyldulífs er leiddi af synjun stefndu hafi fullnægt áskilnaði 3. mgr. 71. gr. stjórnarskrárinnar sem og því skilyrði 2. mgr. 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu að vera  nauðsynleg til verndar siðgæði og réttindum annarra. Með þeim aðgerðum sem stjórnvöld gripu til í kjölfar synjunarinnar og þeirri ættleiðingu sem stefnendum stóð til boða telur dómurinn jafnframt að leitað hafi verið eðlilegs jafnvægis milli þeirra samfélagslegu hagsmuna sem bann við staðgöngumæðrun á rætur að rekja til og einstaklingsbundinna hagsmuna barnsins. Dómurinn tekur undir að aðgerðir stjórnvalda er lúta að stöðu og högum barns verði að taka mið af því sem barninu er fyrir bestu, sbr. t.d. 1. mgr. 3. gr. barnasáttmálans, sbr. lög nr. 19/2013. Þessir hagsmunir megna þó ekki að hnekkja þeim grunnreglum sem rakin hafa verið um hvernig foreldratengsl myndast að íslenskum rétti. Þó að hagsmunir barnsins vegi þungt fá þeir með öðrum orðum ekki breytt konu í móður,“ segir í dómi héraðsdóms.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert