Háhyrningshræ í Urthvalafirði

Íbúi á Grundarfirði gekk fram á hræið af háhyrningnum í …
Íbúi á Grundarfirði gekk fram á hræið af háhyrningnum í vikunni. mynd/Skessuhorn/tfk

Dauðan háhyrning rak á land í Urthvalafirði utan við Kolgrafafjörð á Snæfellsnesi í byrjun vikunnar en það var Grundfirðingur í gönguferð um Eyrarodda sem gekk fram á hræið. Starfsmaður Hafrannsóknastofnunar segir að hræið muni líklega rotna fljótt í fjörunni og lítið verði eftir af því eftir um þrjá mánuði. 

Á vef Skessuhorns kemur fram að nokkur umferð hafi verið út á oddann til að skoða hræið enda sé nánast hægt að aka alveg upp að því á jeppum. Háhyrningurinn sé nokkuð heillegur að sjá. Fleiri myndir af hræinu í fjörunni er að finna á vef Skessuhorns.

Sverrir Daníel Halldórsson, starfsmaður Hafrannsóknarstofnunar, segir að þegar sé búið að taka kjöt-, spik- og tannsýni úr dýrinu og verið sé að skoða að taka fleiri. Háhyrninga reki á land einu sinni til tvisvar á ári en ekki sé vitað hvers vegna það gerist.

Í frétt Ríkisútvarpsins af háhyrningnum kemur fram að áberandi hafi verið hversu illa tennur skepnunnar hafi verið farnar. Sverrir segir engar kenningar uppi um ástæður þess en þetta sjáist oft í háhyrningum. Tennurnar virðist slitna fljótt, að minnsta kosti í sumum dýranna.

Það er sveitarfélagsins að ákveða hvað verður um háhyrninginn, að sögn Sverris. Hræ af þessu tagi hverfi hins vegar fljótt í náttúrunni vegna rotnunar og annarra dýra. Segist hann halda að eftir þrjá mánuði verði ansi lítið eftir af  hræinu.

Uppfært KL. 13:15: Þorsteinn Steinsson, bæjarstjóri Grundarfjarðar, segir að hann hafi tilkynnt Heilbrigðiseftirliti Vesturlands um hræið í morgun. Ef Hafrannsóknastofnun, Náttúrustofa eða Heilbrigðiseftirlitið ætli ekki að gera neinar sérstakar ráðstafanir varðandi rannsóknir á dýrinu telur hann langheppilegast að urða það á staðnum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert