Ísland afturkalli formlega umsóknina

Stjórnarráð Íslands í Lækjargötu. Skorað er á ríkisstjórnina að afturkalla …
Stjórnarráð Íslands í Lækjargötu. Skorað er á ríkisstjórnina að afturkalla formlega umsókn sína til baka. mbl.is/Ómar

Framkvæmdastjórn Heimssýnar skorar á ríkisstjórn Íslands að fylgja fordæmi Sviss og afturkalla formlega umsókn sína um aðild að Evrópusambandinu. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Heimssýn.

Segir þar að skiptar skoðanir hafi verið um hver sé stjórnsýsluleg staða umsóknar Íslands um aðild að Evrópusambandinu frá 2009. Utanríkisráðherra hafi lagt fyrir Alþingi 2014 tillögu til þingsályktunar um afturköllun umsóknarinnar að ESB.

Staðfesting ESB ekki borist

„Tillögunni var ekki fylgt eftir á næsta þingi en í stað þess sendi utanríkisráðherra framkvæmdastjórninni bréf þar sem tilkynnt var að núverandi ríkisstjórn  Íslands liti ekki á Ísland sem umsóknarríki. Og jafngilti það því að umsóknin hafi verið afturkölluð.“

Formleg staðfesting af hálfu ESB, um sama skilning á málinu, hafi hinsvegar ekki borist.

„Sendiherra ESB hér á landi hefur lýst því í viðtali að ESB líti svo á að umsóknin Íslands sé áfram virk. Staða umsóknar Sviss og Íslands hefur því verið í áþekk.“

Aðsetur framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins í Brussel.
Aðsetur framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins í Brussel. AFP

Umsókn Sviss dregin til baka

Sviss­neska þingið samþykkti á þriðjudag, með 126 at­kvæðum gegn 46, þings­álykt­un­ar­til­lögu þess efn­is að um­sókn Sviss um inn­göngu í Evr­ópu­sam­bandið, sem verið hef­ur á ís frá því að sviss­nesk­ir kjós­end­ur höfnuðu aðild að Evr­ópska efna­hags­svæðinu (EES) í þjóðar­at­kvæðagreiðslu árið 1992, verði dreg­in til baka.

Viðræður höfðu þá haf­ist um inn­göngu í sam­bandið en í kjöl­far þjóðar­at­kvæðis­ins ákváðu sviss­nesk stjórn­völd að hætta þeim og setja um­sókn­ina á ís þar sem hún hef­ur verið síðan.

Frétt mbl.is: ESB-umsókn Sviss verði dregin til baka

Segir í tilkynningunni að svissneska þingið líti svo á að mikilvægt sé að hafa hreinar línur í framtíðarsamskiptum við Evrópusambandið. Því sé mikilvægt að umsóknin sé formlega og ótvírætt dregin til baka.

„Sama má segja um stöðu umsóknar Íslands. Ýmsir stjórnmálaflokkar, samtök og einstaklingar líta opinberlega svo á að umsókn Íslands sé í fullu gildi og að hvenær sem er sé hægt að halda áfram ferlinu um inngöngu í Evrópusambandið. 

Þess vegna er mikilvægt að á Íslandi eins og í Sviss séu hreinar línur í þessum efnum gangvart Evrópusambandinu. Því er í mikilvægt að ríkisstjórn og Alþingi fylgi fordæmi Sviss og samþykki formlega afturköllun umsóknarinnar að ESB frá 2009.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert