Langir biðlistar í myglugreiningu

Raki og mygla geta verið til vandræða í híbýlum fólks.
Raki og mygla geta verið til vandræða í híbýlum fólks. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Biðlistar eru eftir greiningu vegna myglu og rakavandamála hjá Húsum og heilsu, deildar innan verkfræðistofunnar Eflu sem sérhæfir sig í greiningu á þessum vanda. Að sögn Ríkharðs Kristjánssonar verkfræðings þarf fólk að bíða í nokkrar vikur eftir greiningu.

„Öfugt við heilbrigðisgeirann reynum við að vinna listana hratt niður, en það hefur engu að síður orðið nokkuð margra vikna bið hjá sumum eftir að við getum komið á staðinn og tekið eignina út,“ segir Ríkharð. Hús og heilsa taka út fyrirtæki, stofnanir og heimahús og segir hann þá yfirleitt kallaða til af því að fólk sé að veikjast. Ríkharð segir áhuga á greiningu á myglu og raka orðinn mun meiri en áður og telur hann aukna vitund fólks um mikilvægi eigin heilsu eiga hlut að máli.

Rakavandinn sé þekktur í mörgum eldri byggingum en hann sé þó ekki síður vandamál í nýjum húsum. „Við hjá Eflu erum að fást við skemmdir mjög víða, jafnvel í húsum sem hafa skemmst á innan við fimm árum.“ Hann nefnir sem dæmi þök sem hafi verið illa loftuð og plastrakavörn sem götuð hafi verið af raf- og hitalögnum og orðið þess valdandi að útveggir húss voru orðnir kolmyglaðir innan við fimm árum frá byggingu. „Við úttektir á húsum vegna myglu og rakavanda rekumst við á allt frá lélegri hönnun og lélegum útfærslum yfir í rangt efnisval og ranga uppbyggingu.“

Ekki enn búið að banna

Skemmdir í nýjum húsum tengjast oft steinullarklæðningu og krossviðarplötum í þaki. Algengt sé að krossviðarþök lofti ekki í gegn og að lagnir valdi því að loft komist inn í steinull – sem geti svo valdið myglu og raka. „Þetta er mjög algengt,“ segir hann. „Ég kallaði saman hóp fyrir nokkrum árum sem skrifaði bréf til Mannvirkjastofnunar, fagfélaga og Samtaka iðnaðarins og varaði við þessari leið og lagði til að hún væri bönnuð, en það er ekki enn búið að banna þetta.“  

Rannsóknarstofnun byggingaiðnaðarins, sem sameinuð var Nýsköpunarstofnun á síðasta áratug, hafi sinnt þessum málum vel á sínum tíma og breytt reglugerðum þegar með þurfti. Margt gott sé gert hjá Nýsköpunarstofnun en hún hafi ekki fjármagn til að sinna þessu hlutverki. „Í kringum 1980 hafði Rannsóknarstofnunin gert úttekt á steypu í útveggjum, þökum og gleri og í kjölfarið voru alkalívirk efni og salt bannað og við þetta hurfu alkalískemmdirnar. Það vantar svona stofnun í dag og þess vegna halda þessi vandamál áfram að koma upp.“

Raki og mygla geta verið til vandræða í híbýlum fólks.
Raki og mygla geta verið til vandræða í híbýlum fólks. Golli / Kjartan Þorbjörnsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert