„Snýst um að verja samvinnu stétta“

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra. mbl.is/Golli

Þetta snýst ekki bara um að verja bændur. Þetta snýst um að verja samvinnu ólíkra stétta,“ segir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra á vefsíðu sinni í dag þar sem hann gagnrýnir Gylfa Arnbjörnsson, forseta Alþýðusambands Íslands, og sambandið vegna framgöngu þeirra í umræðunni um nýja búvörusamninga. Sigmundur segir afstöðu heildsala til málsins ekki koma á óvart enda vilji þeir fá að flytja meira inn á kostnað innlendrar framleiðslu og leggja meira á vörurnar.

„En hvernig stendur á því að þeir sem tala mest um sérhagsmuni líta á það sem sérhagsmunagæslu að samið sé um kjör við stóra stétt fólks sem leikur gríðarlega mikilvægt hlutverk í samfélaginu á meðan þeir sem reka beinlínis samtök um fákeppnisrekstur og berjast fyrir auknum innflutningi og hærri álagningu til sín eru ekki taldir vera í sérhagsmunagæslu? Nei, þeir eru kallaðir til sem álitlegir álitsgjafar um sérhagsmunagæsluna sem felst í því að samið sé við stóra stétt fólks um starfsaðstæður og kjör. Kjör sem eru sannarlega ekki betri en það sem samið er um við margar aðrar stéttir,“ segir forsætisráðherra og bætir við:

„Svo birtist forseti ASÍ og skammast yfir því að hafa ekki fengið að skipta sér nógu mikið af samningum við bændur. Á þá formaður Bændasamtakanna að troða sér að samningaborðinu hjá öðrum stéttarfélögum og mæla fyrir um hversu mikið megi greiða hinum og þessum stéttum og með hvaða hætti?  Ætti formaður Bændasamtakanna að bölsótast yfir því að það sé ómögulegt að menn séu bundnir af þessum íslensku kjarasamningum þegar erlent vinnuafl sé til í að vinna sömu vinnu á lægra verði?“ Formaður Bændasamtakanna myndi þó ekki koma fram með þeim hætti. En það virtist í lagi þegar bændur væru annars vegar.

„Hver telur forseti ASÍ að séu kjör þeirra sem starfa við framleiðsluna sem hann vill að fái betri tækifæri til að keppa við framleiðslu þeirra sem starfa í greininni á Íslandi? Telur hann að þeir sem starfa þar á lægstu töxtum búi við betri, jafngóðar eða verri aðstæður og kjör en fólk sem við myndum á Íslandi kalla fórnarlömb mansals? Það væri auðvitað hægt að ná sama markmiði með því að hafa bara nokkur risabú á Íslandi með vinnuafli sem fengi greitt samkvæmt kjarasamningum í Bangladesh.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert