Frá svifíþróttaferðum um Ísland upp í dvöl á hólma í Þjórsá

Þjórsá - meðal gistimöguleika fyrir ferðamenn í sumar er sjálfbær …
Þjórsá - meðal gistimöguleika fyrir ferðamenn í sumar er sjálfbær dvöl á hólma í ánni. Mbl.is/ Gísli Sigurðsson

Samkeppni um bestu hugmynd í ferðaiðnaðinum á Íslandi átti sér stað á ITICE ráðstefnunni í Hörpu á þriðjudag. Níu hugmyndir voru kynntar til leiks en þar gaf að líta allt frá matarferðum um landið, dvöl á hólma í Þjórsá og farsímalausum heilsuferðum upp í þeysireið um Ísland á 300 hestum. 

Það var Startup Tourism sem hélt samkeppnina en markmiðið með fyrirtækinu er að efla frumkvöðlastarf innan ferðaþjónustunnar a Íslandi og stuðla að faglegri undirstöðu hjá sprotafyrirtækjum. Einnig er markmiðið að ýta undir dreifingu ferðamanna um landið.

Startup Tourism hélt vinnusmiðjur í vetur þar sem  tíu þáttakendur þróuðu hugmyndir sínar áfram.

Þau sprotafyrirtæki sem tóku þátt voru eftirfarandi: 

Bergrisi – Guðlaugur Magnússon 

Hönnun á hugbúnaðar- og tæknilausn fyrir þjónustusala svo gera meigi bæði sölu- og afgreiðsluferlið sjálfvirkara.

Book Iceland – Örlygur Hnefill Örlygsson
Fyrirtæki utan um bókunarkerfi fyrir gistiheimili og smærri hótel.

Food Tours  – Ólöf Ingólfsdóttir
Farið með ferðamenn í dagsferðir þar sem íslensk náttúra, matarupplifun og tengsl við heimamenn eru í forgrunni

The Icelandic Horsegames – Aníta Margrét Aradóttir
Skipulagning á  krefjandi kappreið yfir Ísland fyrir reynda knapa.

Arctic Trip – Halla Ingólfsdóttir
Nýstárleg ferðaþjónusta á og í kringum Grímsey.

Iceland Health & Travel  – Aldís Arna Tryggvadóttir
Heilsutengt ferðaþjónusta  um Vesturland þar sem hlúð er að líkama og sál og gestir hvattir til að slökkva á snjallsímanum. 

Traustholtshólmi – Hákon Kjalar Hjördísarson
Sjálfbær dvöl fyrir smáa hópa á óspilltri eyju í Þjórsá.

Huliðsheimar – Ólöf Magnúsdóttir
Álfar og huldufólk á sýningu sem nýtir nýjustu tækni en byggir á íslenskum sagnaarfi.

Happyworld – Róbert Bragason
Svifíþróttaferðir um Ísland. 

Tíundi keppandinn komst ekki til að kynna hugmynd sína í Hörpu en það var Róbert Sveinn Róbertsson sem er með gistingu í glærum plastkúlum í Biskupstungum þar sem gestir geta notið þess að horfa á stjörnur og norðurljós undir næstum berum himni. 

Vinningshafarnir voru þrír: Aníta Margrét Aradóttir fyrir bestu kynninguna, Aldís Arna Tryggvadóttir fyrir ástríðufyllstu kynninguna, og Hákon Kjalar Hjördísarson fyrir bestu söguna á bak við hugmyndina. Það var Iceland Monitor, enski hluti Mbl.is sem veitti verðlaunahöfum auglýsingapakka að verðmæti 300 þúsund krónur, þyrluflug með Helo og netáskrift að Morgunblaðinu. Einnig hlutu vinningshafar gjafabréf frá Íslandshótelum. 

Dómarar í samkeppninni voru Robert C. Barber, sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi, Viktoría Sveinsdottir, formaður Iceland Tourism Investment Conference & Exhibition, Ásberg Jónsson, stofnandi Nordic Visitor, Hrönn Greipsdóttir, fjárfestingarstjóri hjá Eldey TLH hf. og Gústaf Gústafsson, sölu og markaðsstjóri hjá Norðursiglingu. 

Vinningshafar og dómarar í frumkvöðlakepnninni sem haldin var á ITICE …
Vinningshafar og dómarar í frumkvöðlakepnninni sem haldin var á ITICE ráðstefnunni í Hörpu.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert