Vann 48,7 milljónir eftir borgarferð

Lottó
Lottó

Heppinn lottóspilari og fjölskyldufaðir varð tæplega 50 milljónum króna ríkari eftir rómantíska borgarferð til Reykjavíkur með frúnni um daginn. Kom hann við á sölustað í Kringlunni og keypti vikulegan miða og velti mögulegum vinningi svo ekkert fyrir sér fyrr en viku seinna þegar hann var kominn til baka í heimabæinn og fór á sölustaðinn þar. Fór lottóvélin þá á fullt með tilheyrandi hljóðum.

Maðurinn tók fyrstu vél aftur til Reykjavíkur samkvæmt tilkynningu frá Íslenskri getspá, enda skynsamlegt að koma miðanum góða í öruggar hendur sem fyrst. Heildarvinningurinn hljóðaði upp á 48,7 milljónir.

Vinningshafinn sagði að mjög erfitt væri að lýsa þeirri tilfinningu að verða orðinn milljónamæringur; er þetta djók, getur þetta verið, er ég virkilega orðinn milljónamæringur? er haft eftir honum í tilkynningunni.

Hann ætlar að hreinsa upp lánin, vera slakur og halda áfram að spila Lottó.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert