270 nemendur skráð sig í A-prófið

Frestur til skráningar í prófið rennur út 13. mars.
Frestur til skráningar í prófið rennur út 13. mars. mbl.is/Ómar

Um 270 nemendur hafa skráð sig í A-prófið svokallaða, sem haldið verður þann 19. mars næstkomandi. Prófið er fyrst og fremst ætlað þeim nemendum sem hyggja á nám við lagadeild, hagfræðideild og hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands í haust.

Til samanburðar þreyttu tæplega 250 manns A-prófið á sama tíma í fyrra, en þá voru samtals um 320 nemendur skráðir til prófs, samkvæmt upplýsingum frá háskólanum.

Ekki liggja fyrir upplýsingar um skiptingu prófskráninga á milli þeirra deilda sem nýta sér prófið við val á nýnemum, enda þurfa þeir sem þreyta prófið að sækja sérstaklega um nám við skólann. Skráning í prófið jafngildir þannig ekki umsókn til náms við háskólann.

Haldið tvisvar á ári

A-prófið verður haldið tvisvar í ár líkt og í fyrra og síðara A-próf þessa árs fer fram 10. júní, en rúmlega 200 manns þreyttu prófið í júní á síðasta ári. Prófið er einnig hluti af inntökuprófi í læknisfræði og sjúkraþjálfun við Læknadeild, en það próf þreyttu 250 manns í fyrra.

Frestur til skráningar í prófið rennur út 13. mars og ef mið er tekið af skráningum í fyrra má fastlega búast við að skráningum í ár fjölgi nokkuð þegar nær líður skráningarfresti, samkvæmt upplýsingum frá Háskóla Íslands.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert