Orator aðstoðar við framtalsskil

Hér má sjá hópinn sem veita mun aðstoðina.
Hér má sjá hópinn sem veita mun aðstoðina. Ljósmynd/ Orator

Skattadagur Orator, félags laganema við Háskóla Íslands, fer fram á sunnudaginn kemur.

Á Skattadeginum veita laganemar almenningi endurgjaldslausa aðstoð við framtalsskil. Aðstoðin er liður i því að laganemar þjálfist í að beita menntun sinni með hagnýtum hætti og gefi til baka til samfélagsins, að því er segir í tilkynningu frá félaginu. Metmæting var í fyrra og vonast félagið til þess að það sama verði uppi á teningnum í ár.

„Aðstoðin gagnast mjög breiðum hópi, til að mynda þeim sem skilja ekki íslensku þar sem viðmótið við vefskil er aðeins á íslensku, þeim sem hafa verið að fá verktakagreiðslur, hafa verið að kaupa og selja eignir, þurfa aðstoð við að færa inn frádrátt, hafa aldrei talið fram sjálfir áður, eru á einhvern hátt óöruggir með framtalið og þannig mætti lengi telja,“ segir í tilkynningu félagsins.

Þeir sem vilja nýta sér aðstoðina eru beðnir um að hafa með sér eftirfarandi:

  • Veflykil RSK.
  • Lykilorð og/eða auðkennislykil fyrir heimabanka, eftir því sem við á.
  • Verktakamiða síðasta árs, ef við á.

„Við njótum ómetanlegrar aðstoðar frá sérfræðingum hjá Deloitte sem aðstoða við flóknari álitaefni sem upp koma. Í ár fer skattadagur Orators fram sunnudaginn 6. mars í hliðarsal við Háskólatorg (Litla-torg) frá kl. 12.00–18.00 og eru allir velkomnir.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert